Háhyrningur (Orcinus orca)

Distribution

Háhyrningur er ein útbreiddasta spendýrategund jarðar og finnst um öll heimsins höf. Tegundin skiptist í marga aðskilda stofna og tvær til þrjár deilitegundir. Í Norður-Atlantshafi er útbreiðslan frá Mexíkóflóa og Vestur Afríku í suðri til Baffinseyjar og Barentshafs í norðri, þó yfirleitt ekki norðar en að hafísjaðri. Háhyrningar sjást á Íslandsmiðum árið um kring og fylgja þeir gjarnan síldargöngum og öðru æti.

Population

Heildarstofninn er mjög stór en vegna óvissu um flokkunarfræði og stöðu undirtegunda telur sérfræðinganefnd IUCN að ekki séu nægileg gögn til að meta einstaka stofna í hættuflokka. Vitað er að háhyrningar lifa í tiltölulega stöðugum fjölskyldueiningum sem stundum sameinast öðrum tímabundið, til dæmis á síldveiðimiðum. Hluti þeirra virðist staðbundinn við Ísland og fylgja síldargögnum en vitað er til að sumir háhyrningar ferðast milli Íslands og Skotlands. Stofninn sem heldur til á hafsvæðum við Ísland er talinn vera um 5-7 þúsund dýr en þar á meðal gætu verið einstaklingar af stærri stofni (Þorvaldur Gunnlaugsson og Jóhann Sigurjónsson 1990).

Life styles

Mikill kynjamunur er á ævilengd háhyrninga og verða kýr 80-90 ára gamlar en tarfar aðeins um 50-60 ára. Kýrnar verða jafnframt kynþroska tíu ára gamlar en tarfar ekki fyrr en 16 ára. Í Norður Atlantshafi virðist fengitími vera snemmvetrar en meðgöngutíminn er um 17 mánuðir. Kálfar neyta snemma fastrar fæðu en eru þó á spena í allt að tvö ár. Háhyrningar hafa flókið félagskerfi og fara jafnan um í mis stórum hópum skyldra einstaklinga. Matseðillinn er afar fjölbreyttur og inniheldur meðal annars ýmsar fisktegundir, smokkfisk og sjófugla. Þeir eru öflug rándýr og eina hvalategundin sem veiðir önnur sjávarspendýr sér til matar. Til eru dæmi um að hópur háhyrninga vinni saman að veiðum og þá geta þeir ráðist á stærstu hvali, jafnvel steypireyði.

Description

Háhyrningur er stærsta tegundin innan höfrungaættarinnar. Tarfarnir verða allt að sex metra langir en kýrnar um 5,5 metrar að lengd. Búkurinn er gildvaxinn, höfuðið stórt og skolturinn sterkbyggður með stuttu trýni. Bægslin eru breið og rúnnuð í endann, hlutfallslega stærri hjá törfum en kúm. Hornið er stórt og sveigist aftur á kúm og ókynþroska törfum en þegar þeir ná kynþroska stækkar hornið og getur orðið allt að 1,8m hátt. Skýrt afmarkað svart-hvíta litamynstrið er einkenni háhyrninga. Litamynstur er mismunandi meðal einstaklinga og er notað, ásamt útliti horns, til að greina einstök dýr af ljósmyndum.

Shortlist

LC (ekki í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
LC DD DD

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 25,7 ár. Tímabil sem mat miðast við eru 3 kynslóðir

Þótt gögn úr stórhvalatalningum séu ekki nákvæm hvað varðar háhyrninga benda þau ekki til þess að nein fækkun hafi orðið á svæðinu umhverfis Ísland á undanförnum áratugum. Ekki liggja heldur nein gögn fyrir um að breytingar hafi orðið síðustu 75 ár (3 kynslóðir) þótt beinar mælingar liggi ekki fyrir yfir allt tímabilið.

Háhyrningar flokkast því ekki í hættu (LC) við Ísland.

Global position

Háhyrningur flokkast sem DD á Heims- og Evrópulistum IUCN. Sú flokkun helgast af óvissu um flokkunarfræði því vera kann að tegundinni verði skipt upp í fleiri tegundir sem sumar kynnu að lenda á válistum. Sú umræða nær þó ekki til háhyrninga á okkar slóðum. Við Noreg teljast háhyrningar ekki í hættu (LC).

Threats

Helstu ógnir sem steðja að háhyrningum í Norður Atlantshafi eru þættir sem almennt ógna lífríkinu eins og  efnamengun, hljóðmengun, súrnun sjávar, skipaumferð og hnattræn hlýnun. Áhrif þessara þátta á háhyrninga til lengri eða skemmri tíma eru þó illa þekkt.

Images

References

Gísli A. Víkingsson (2004) Háhyrningur. Í: Páll Hersteinsson (ritstj.) Íslensk spendýr. Vaka-Helgafell, Reykjavik, p 166-171.

Reeves, R., Pitman, R.L. & Ford, J.K.B. 2017. Orcinus orca. The IUCN Red List of Threatened Species 2017: e.T15421A50368125. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2017-3.RLTS.T15421A50368125.en. [Downloaded on 22 October 2018].

Samarra FI, Vighi M, Aguilar A, Víkingsson GA (2017) Intra-population variation in isotopic niche in herring-eating killer whales off Iceland. Mar Ecol Prog Ser 564:199–210

Sigurjonsson J, Lyrholm T, Leatherwood E, Jonsson E, Vikingsson G (1988) Photoidentification of killer whales, Orcinus orca, off Iceland, 1981 through 1986. Rit Fiskid 11:99–114

Þorvaldur Gunnlaugsson og Jóhann Sigurjónsson (1990). NASS-87: Estimation of whale abundance based on observations made onboard Icelandic and Faroese survey vessels. Reports of the International Whaling Commission, 40, 571-580.

Author

Ester Rut Unnsteinsdóttir október 2018

Biota

Tegund (Species)
Háhyrningur (Orcinus orca)