Sléttbakur (Eubalaena glacialis)

Distribution

Útbreiðsla sléttbaks er talin hafa verið samfelld í Norður-Atlantshafi en er nú að mestu bundin við austurströnd Norður-Ameríku og suðurodda Grænlands. Sléttbakur er talinn hafa verið algengur við Ísland fyrr á öldum en er nánast alveg horfinn vegna ofveiða allt frá miðöldum. Til skamms tíma voru sléttbakar í N-Kyrrahafi taldir til sömu tegundar.

Population

Mat á heildarstofnstærð tegundarinnar hefur verið unnið út frá ljósmyndum af einstaklingum frá árinu 1990. Fyrstu 20 árin var árlegur vöxtur metinn um 2,8%. Samkvæmt því var stofnstærðin 274 dýr árið 1990 en 480 dýr árið 2010. Eftir það hefur sléttbökum fækkað og var heimsstofninn metinn um 465 dýr árið 2015. Á síðustu árum virðist sléttbökum hafa fækkað enn meira, meðal annars vegna hjáveiða og árekstra við skip. Til dæmis voru árið 2017 skráð 17 tilfelli þar sem sléttbakar drápust af þeim sökum og samsvarar um 4% heildarstofnsins (Cooke 2018).

Life styles

Sléttbakar verða meira en 70 ára gamlir en kynþroska 6-9 ára. Meðgöngutími er 12 mánuðir og fer mökun og burður fram á veturna. Kálfurinn er á spena í allt að eitt ár og líða oftast 3-5 ár á milli þess sem hver kýr ber. Sléttbakurinn er fardýr og dvelur á norðlægari slóð við fæðunám á sumrin en á veturna er fengitími og burður. Sléttbakar nærast með því að synda með opið ginið og sía fæði úr sjónum sem rennur inn um kjaftinn og síðan út milli skíðanna. Talið er að fæðan sé nánast eingöngu svifkrabbar.

Description

Sléttbakar eru mjög gildvaxnir og hægsyndir, allt að 16 metrar að lengd og 90 tonn að þyngd. Hausinn er sívalur og afar stór, allt að 30% af heildarlengd dýrsins. Munnholið er hátt og mjótt og munnvikin ná upp í stóran boga yfir neðra kjálkabein, frá trjónu og niður undir augu. Skíðin eru í efri skolti og geta orðið 2,8 metra löng, svört eða dökkgrá að lit. Sléttbakar hafa þykkildi sem mynda hrúðurbletti á yfirborði haussins og þar lifa sérhæfð krabbadýr, hvallýs (Cyamidae), sem setjast þar að skömmu eftir að hvalkýrnar bera. Litur og lögun þessara bletta er gjarnan notuð til að greina milli einstakra sléttbaka en ekki er vitað til þess að þessar ásætur skaði hýsil sinn. 

Shortlist

CR (í bráðri hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
CR CR EN

Forsendur flokkunar

Sléttbakur er talinn hafa verið algengur við Ísland fyrr á öldum en sést nú orðið mjög sjaldan á íslensku hafsvæði og flokkast sem CR (C2a(i) og D1 fyrir íslenska hafsvæðið).

Global position

Sléttbakur er skilgreindur í hættu (EN) á Heimslista IUCN, í útrýmingarhættu (CR) á svæðisválistum Evrópu og Grænlands. Þá er sléttbakur flokkaður sem útdauður (RE) í Noregi. Hann er skráður í IV. viðauka Bernarsamningsins og í I. viðauka CITES samningsins um bann með alþjóðaverslun dýra.

Threats

Tegundin var miklu útbreiddari og algengari á fyrri tímum en vegna þess hve hægsyndir og auðveiddir sléttbakar eru, voru þeir ofveiddir og nánast útrýmt. Hæg viðkoma og fáir kynþroska einstaklingar í litlum stofni veldur því að fjölgun tekur langan tíma. Nokkuð er um að sléttbakar lendi í árekstrum við skip eða festist í veiðarfærum á hafi úti og er það talin helsta dánarorsök þeirra.

References

Cooke, J.G. 2018. Eubalaena glacialis. The IUCN Red List of Threatened Species 2018: e.T41712A50380891. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2018-1.RLTS.T41712A50380891.en. Downloaded on 19 October 2018.

Gísli A. Víkingsson (2004). Sléttbakur. Í: Íslensk spendýr (ritstj. Páll Hersteinsson). JPV, Reykjavík. Bls. 194-197.

Reilly, S.B., Bannister, J.L., Best, P.B., Brown, M., Brownell Jr., R.L., Butterworth, D.S., Clapham, P.J., Cooke, J., Donovan, G., Urbán, J. & Zerbini, A.N. 2012. Eubalaena glacialis. The IUCN Red List of Threatened Species 2012: e.T41712A17084065. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2012.RLTS.T41712A17084065.en

Author

Ester Rut Unnsteinsdóttir október 2018

Biota

Tegund (Species)
Sléttbakur (Eubalaena glacialis)

English Summary

Eubalaena glacialis is now mostly confined off the east coast of North America and south of Greenland. It was common in Icelandic waters before the onset of large-scale whaling in the 16th century but is now a very rare and irregular visitor. The population is small and declining AND number of mature individuals is critically low. Therefore the species is listed as critically endangered (CR) according to IUCN criteria.