Ormsnigill (Boettgerilla pallens)

Distribution

Evrópa; innfluttur til Ameríku, Kanada, Bandaríkin, Mexíkó, Kólumbía.

Ísland: Hafnarfjörður, Kópavogur.

Life styles

Ormsnigill er ljósfælinn og heldur sig sem mestu undir yfirborði. Hann skríður ofan í jarðveginn, gjarnan eftir göngum ánamaðka eða ofan í aðrar glufur. Hann er sem mest á skriði og nartar í leiðinni í það sem á vegi hans verður, rotnandi leifar í jarðvegi, ánamaðkaskít, sniglaegg, mjúkan plöntuvef, rætur og hræ. Með heppni má einnig finna hann undir steinum og öðru lauslegu. Annars er hann síður en svo vandlátur og gerir sér flestar aðstæður að góðu, garða, graslendi, laufskóga, barrskóga og hvað eina. Ekki eru sérþarfir heldur varðandi bleytu og sýrustig jarðvegs. Í Evrópu finnst hann jafnvel hátt til fjalla í Kákasus, í yfir 1700 m hæð, og er því kuldaþolinn. Ormsnigill makast síðla sumars og á haustinn. Þeir fullorðnu drepast upp úr því og ungviði brúar veturinn til næsta vors.

In General

Talið er að ormsnigill eigi uppruna að rekja til Kákasus. Um og upp úr miðri síðustu öld fór hann að sjást vestar í Evrópu, t.d. í Þýskalandi 1949, á Bretlandseyjum 1972, í Svíþjóð 2010. Hann berst auðveldlega með jarðvegi landa á milli og hefur væntanlega borist þannig vestur yfir Atlantshaf til Ameríku. Þannig hefur hann án efa einnig borist til Íslands. Í lok maí 2006 fannst ormsnigill í Hafnarfirði í aflagðri gróðrarstöð, en þær upplýsingar höfðu varðveist á ljósmynd af ókunnuglegum snigli. Í ljós kom löngu síðar hver tegundin var. Ef til vill hefur ormsnigill numið hér land þó ekki verði það fullyrt sem stendur. Erfitt er að hafa upp á honum þar sem hann fer að mestu huldu höfði ofan í jarðvegi. 

Ormsnigill er verulega frábrugðinn öðrum sniglum hér á landi og einnig í nágrannalöndunum. Hann er mjór, nánast ormlaga, og ekki nema 30-40 mm á lengd. Hann er fölur á lit, rjómahvítur á bolinn og bláhvítur til beggja enda; fálmarar, höfuð og háls. Kápan er löng og dregin aftur í nokkurn odd. Þá hefur hann leifar af skel sem falin er undir afturenda kápunnar.

Distribution map

References

Fauna Europaea. Boettgerilla pallens. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=421922.

Mandahl-Barth, G. 1938. Land and Freshwater Mollusca. Zoology of Iceland IV, Part 65. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 31 bls.

Moorkens, E.A., & I.J. Killeen 2009. Database of assosiation with habitat and environmental variables for non-shelled slugs and bivalves of Britain and Ireland. Irish Wildlife Manuals, nr. 41. National Parks and Wildlife Service, Department of the Environment, Heritage and Local Government, Dublin, Ireland.

Pfleger, V. & J. Chatfield 1988. A Guide to Snails of Britain and Europe. Hamlyn, England. 216 bls.

Rowson, B., J. Turner, R Anderson & B. Symondson 2014.Slugs of Britain and Ireland. FSC Publications, Telford. 136 bls.

Watson, L. & M.J. Dallwitz, 2005 (og áfram). The families of British non-marine molluscs (slugs, snails and mussels). Útgáfa: 4. janúar 2012. (http://delta-intkey.com)

Wikipedia. Boettgerilla pallens. https://en.wikipedia.org/wiki/Boettgerilla_pallens.

Author

Erling Ólafsson 18. janúar 2017.

Biota

Tegund (Species)
Ormsnigill (Boettgerilla pallens)