Jötungíma (Calvatia gigantea)

Mynd af Jötungíma (Calvatia gigantea)
Picture: Hörður Kristinsson

Jötungíma (Calvatia gigantea)

Mynd af Jötungíma (Calvatia gigantea)
Picture: Hörður Kristinsson

Jötungíma (Calvatia gigantea)

Mynd af Jötungíma (Calvatia gigantea)
Picture: Hörður Kristinsson

Jötungíma (Calvatia gigantea)

Jötungíma á vaxtarstað sínum á Þríhyrningi í Hörgárdal haustið 2014.
Picture: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir

Jötungíma í tóftum Svíra á Þríhyrningi í Hörgárdal 29. ágúst 2014. Vex í hring og voru a.m.k. 43 aldin og var hringurinn um 40 m í þvermál.

Útbreiðsla

Hefur fundist á einum stað í Árnessýslu, í Kjósinni, í Bolungarvík og á Patreksfirði, á þremur stöðum í Eyjafirði, tveimur stöðum í Mývatnssveit, einum stað á Melrakkasléttu og á tveimur stöðum á Fljótsdalshéraði alls 12 einstaklingar (Sveppasafn NÍ, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir 2018).

Almennt

Jötungíma er talin stærsti sveppur í heimi, þ.e. sá sem myndar stærst aldin. Engan mun hafa grunað að hún yxi hér á landi, fyrr en síðla sumars 1988, að hún fannst næstum samtímis á bæjunum Smárahlíð í Árnessýslu og Þríhyrningi í Hörgárdal, Eyjafirði. Á báðum stöðum vex hún í grennd við bæi. Stærsta eintakið úr Eyjafirði var um 50 sm á breidd og 20-25 sm á hæð og vó um 6-7 kg. Líklega hefur tegundin flust til landsins á seinni árum en hefur náð fótfestu á þessum stöðum, því að hún hefur sprottið þar upp aftur af og til (Helgi Hallgrímsson óútgefið, Helgi Hallgrímsson, Eiríkur Jensson og Hörður Kristinsson 1992). Eintak frá Smárahlíð er til sýnis í Náttúrugripasafni Íslands í Reykjavík. Árið 1998 bárust fregnir af henni í garði við bæ á Melrakkasléttu og var það staðfest með myndum sem teknar voru af henni árið 2005. Sumarið 2009 myndaði hún 35 m víðan baug. Sumarið 2006 fannst hún í Bolungarvík þar sem hún óx á auðri lóð í bænum. Annar einstaklingur fannst í Hörgárdal við bæinn Litla-Dunhaga, drjúgan spöl frá þeim á Þríhyrningi. Þriðji einstaklingurinn í Eyjafirði fannst nokkuð sunnarlega í Eyjafjarðarsveit í beitarhólfi hrossa í Hlíðarhaga sumarið 2017 og sama ár bárust fregnir með mynd af einni í Kjósinni. 

Nytjar

Eins og aðrir físisveppir er jötungíman æt meðan hún er ung og má segja að einn slíkur sveppur sé góður málsverður handa fjölskyldunni (Helgi Hallgrímsson óútgefið). Erlendis sneiða menn ung aldin jötungímu og nota í stað brauðbotns í sannkallaða sveppaflatböku. Þar sem nú hafa fundist 12 einstaklingar jötungímu dreifðir víða um land ætti að vera óhætt að nýta aldin hennar til matar en gæta þess þó að raska ekki vaxtarstöðum þessa aldinstóra belgsvepps.

Búsvæði

Vex í grennd við bæi, í túnum og í óræktarlóð í þéttbýli.

Lýsing

Aldin kúlu- eða belglaga, oft dálítið flatvaxið og ílangt (egglaga), risavaxið að stærð, 20-60 sm í þvermál (Helgi Hallgrímsson óútgefið).

Sveppaldin

Aldin kúlu- eða belglaga, oft dálítið flatvaxið og ílangt (egglaga), risavaxið að stærð, 20-60 sm í þvermál. Útbyrða þykk, hvít eða gulhvít, slétt, fínlóuð. Innbyrða hvít og holdkennd fyrst, síðan grábrún og pappírskennd. Útbyrðan springur og hjaðnar með aldrinum og kúlan öll grotnar meira eða minna sundur við þroskann og hverfur að mestu leyti þannig að eftir verður smábleðill af innbyrðu ásamt festingu við jarðveginn. Gyrja hvít fyrst, síðan gul, grængul og að lokum brún, fyllir næstum allan belginn. Gró hnöttótt eða næstum hnöttótt, slétt eða með afar fínum vörtum, 3,5-5,5 µm (Helgi Hallgrímsson óútgefið).

Útbreiðsla - Jötungíma (Calvatia gigantea)
Útbreiðsla: Jötungíma (Calvatia gigantea)

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |