Krónumosi (Climacium dendroides)

Distribution

Finnst víða um land (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Habitat

Vex í rökum jarðvegi, svo sem í mýrarjöðrum, árbökkum, tjarnarbökkum og blautu graslendi (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Description

Plöntur vaxa oft margar saman og líta út eins og lítil tré, grænar eða gulgrænar (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Gróliður

Plöntur vaxa oft margar saman og líta út eins og lítil tré, grænar eða gulgrænar, dálítið glansandi þegar þær eru þurrar. Upphaflegi stöngullinn er orðinn að neðanjarðarrenglum sem eru með brúnum, sléttum rætlingum. Frá renglunum vaxa uppréttir, grófir stönglar sem eru greinalausir neðan til en með þéttum greinum í endann og minna þær á krónu á tré. Rætlingar ná eitthvað eftir stöngli. Stönglar rauðbrúnir, þríhyrndir í þverskurði, með greinilegum miðstreng. Uppréttir stönglar oftast 3-10 sm. Á neðri hluta stönguls eru blöð aðlæg, hreisturkennd, kúpt, snubbótt en oft með smábroddi í endann. Greinar ljósrauðbrúnar eða gulbrúnar. Blöð oftast um 3 mm, gróftennt framan til. Rif breitt neðan til í blaðinu en mjótt framan til, nær næstum fram í blaðenda. Greinar þéttflosugar (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Kynliður

Plöntur einkynja, mynda afar sjaldan gróhirslur. Margar gróhirslur á einni plöntu, stundum 25 eða fleiri, stilkarnir koma frá grunni greinanna og efsta hluta stönguls en þó aldrei frá stöngulenda. Stilkur uppréttur, rauður eða rauðbrúnn, oftast 2-3 sm. Gróhirsla rauðbrún, upprétt, sívöl, oft örlítið bogin. Lok hátt, með bognum, keilulaga toppi. Eftir að lokið losnar er það í nokkurn tíma fast við miðsúluna. Í þurrki lengist miðsúlan og lyftir lokinu upp fyrir gróhirsluopið en í raka styttist hún og fellur þá lokið niður og lokar gróhirslunni. Opkrans tvöfaldur. Ytri tennur rauðbrúnar. Innri tennur gulleitar, jafn langar ytri tönnum, klofnar eftir miðju en þó heilar efst og gapa því næstum frá toppi niður að grunni (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Frumur

Frumur í fremri hluta greinablaða mjótígullaga, sléttar. Í neðri hluta blaðs eru þær lengri, í blaðgrunni gular og holóttar. Frumur í blaðhornum litlausar eða gular, ferhyrndar, þunnveggja og svolítið tútnar (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Distribution map

Author

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex í rökum jarðvegi, svo sem í mýrarjöðrum, árbökkum, tjarnarbökkum og blautu graslendi (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Biota

Tegund (Species)
Krónumosi (Climacium dendroides)