Picture: Hörður Kristinsson
Axhæra (Luzula spicata)
Útbreiðsla
Afar algeng jurt um allt landið frá láglendi og allhátt upp í fjöll, fer hærra en frænka hennar, vallhæran.
Búsvæði
Móar, valllendi, melar og fjallshlíðar.
Lýsing
Meðalhá hæra (15–30 sm) með allmörg blómhnoð í axkenndri, hangandi blómskipan. Blómgast í júní.
Blað
Stofnblöðin mjó (1,5–2,5 mm), rennulaga, hærð á blaðröndunum, einkum neðst við slíðrið. Stoðblaðið nær sjaldan lengra en upp á miðja blómskipan.
Blóm
Blómin eru nokkur saman í allmörgum, stuttleggjuðum eða legglausum blómhnoðum í axkenndri skipan sem er lotin á stráendanum. Blómhlífarblöðin sex, dökkbrún eða nær svört, oddmjó. Fræflar sex, frævan þrístrend með einum stíl og þríklofnu fræni.
Greining
Líkist engri annarri íslenskri tegund, þekkist auðveldlega á hinni hangandi, niðursveigðu og axleitu blómskipan.
Útbreiðsla: Axhæra (Luzula spicata)
Höfundur
Was the content helpful
Back to top