Picture: Hörður Kristinsson
Dökkhæra (Luzula sudetica)
Útbreiðsla
Nokkuð algeng, einkum á austanverðu Norðurlandi, lítið á Suðurlandi.
Búsvæði
Deiglendi og mýrar.
Lýsing
Meðalhá hæra (15–40 sm) með beinum stráum og mörgum stuttleggjuðum blómhnoðum og stundum einu til tveimur langleggjuðum hnoðum að auki.
Blað
Gisnar þúfur með stuttar, skriðular jarðrenglur. Blöð flöt, 1,5–3 mm breið, hærð og þétt og jafnt fíntennt á jöðrum (stækkunargler!). Blaðendi með örsmáa nabba (stækkunargler!). Strá stök eða fá saman, bein, oft með einu, löngu, grábrúnu slíðri (Lid og Lid 2005).
Blóm
Mörg stuttleggjuð blómhnoðu þétt saman, stundum einnig eitt til tvö langleggjuð blómhnoðu. Hnoðleggirnir sléttir. Neðsta stoðblað nær oftast upp fyrir blómskipanina. Blómhlífarblöð svarbrún, dekkri en hulstrin, 2–2,5 mm löng, þau ystu greinilega lengri en þau innri, þau innri fínnöbbótt á kilinum (stækkunargler!). Frjóhnappur svo gott sem jafnlangur og frjóþráðurinn. Hlustur gljáandi, kastaníubrúnt (Lid og Lid 2005).
Aldin
Fræ 1,0–1,2 x 0,6–0,7 mm, með svörtu, um 0,2 mm löngu viðhengi (Lid og Lid 2005).
Greining
Það er í raun oft mjög örðugt að þekkja hana með vissu frá vallhæru. Blómhnoðun eru þó oft nokkuð dökk, þétt saman í hnappi en stundum nokkuð dreifð, stráið ofan til og stoðblaðið er oft mjög rauðleitt. Dökkhæran vex ætíð í deiglendi eða mýrum en vallhæran er að jafnaði í þurrlendi.
Útbreiðsla: Dökkhæra (Luzula sudetica)
Höfundur
Was the content helpful
Back to top