Picture: Hörður Kristinsson
Vallhumall (Achillea millefolium)
Picture: Hörður Kristinsson
Vallhumall (Achillea millefolium)
Útbreiðsla
Algengur við byggð ból í kringum allt landið. Í sumum landshlutum er hann einkum í kringum bæi, og kemur því að nokkru leyti fram sem slæðingur sem gæti hafa borist af manna völdum. Annars staðar, einkum á Norður- og Norðausturlandi er hann mjög rótgróinn í villtu landi og vex þar bæði upp til fjalla og inn á hálendið, á nokkrum stöðum upp fyrir 700 m hæð. Hann er til dæmis mjög algengur víða um Ódáðahraun og hálendið þar í kring. Hæstu fundarstaðir vallhumals eru í 900 m hæð sunnan í Skessuhrygg austan Höfðahverfis við Eyjafjörð, og í 850 m hæð í Syðri-Hágangi við Vopnafjörð (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Almennt
Áður var talið að andlitsþvottur með vallhumalsseyði eyddi hrukkum og duft úr rót jurtarinnar var stundum sett í holur í tönnum. Nöfnin melli- eða mellufólía eru vel þekkt á þessari tegund en þau eru komin til vegna latneska heitis tegundarinnar og vísar í hin margskiptu blöð plöntunnar (Ágúst H. Bjarnason 1994).
Nytjar
Vallhumall hefur þónokkuð verið notaður til lækninga. Hann þykir góður til að lækka blóðþrýsting, koma reglu á tíðir og gegn hitaköstum og svefnleysi á breytingaskeiðinu svo eitthvað sé nefnt (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).
Líffræði
Vallhumall inniheldur m.a. bitra sykrunga, blásýrusykrunga, aspargín, kólín, júgenól og kamfóru (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).
Búsvæði
Þurrar brekkur og valllendi, oft í sendnum jarðvegi (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Lýsing
Vallhumallinn er fjölær, lyktarsterk jurt, oftast 15–40 sm á hæð, með margar litlar, hvítar blómkörfur sem standa saman í þéttri, hálfsveipkenndri skipan á stöngulendanum. Blöðin eru margskipt í örmjóa flipa, þar af er dregið latneska nafnið millefolium sem þýðir þúsundblaða.
Blað
Stöngullinn er loðinn með stakstæðum, 7–15 mm breiðum og 2–8 sm löngum, tvífjöðruðum, loðnum laufblöðum. Smáblöðin djúpskert með nær striklaga, oddmjóum flipum (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Nokkur blóm standa saman í litlum (4–5 mm) körfum, sem í fljótu bragði líta út sem einstök blóm. Tungukróna jaðarblómanna hjartalaga, venjulega hvít eða bleik, sjaldnar rauð. Hvirfilblómin eru pípukrýnd, hvít eða grágulleit. Reifablöðin undir körfunni eru græn með dökkbrúnum himnufaldi, langhærð (Hörður Kristinsson 1998 og 2005).
Aldin
Aldin án svifkrans (Lid og Lid 2005).
Afbrigði
Litur blómanna er breytilegur, oftast hvítur eða bleikur. Sums staðar finnst einnig vallhumall með nokkuð dökkrauðum blómum.
Greining
Auðþekktur frá öðrum tegundum, körfurnar líkjast körfum silfurhnappsins en eru minni. Þar skilja laufblöðin á milli, þar sem silfurhnappurinn hefur óskipt, tennt blöð (Hörður Kristinsson 1998).
Útbreiðsla: Vallhumall (Achillea millefolium)
Höfundur
Was the content helpful
Back to top