Kvíslfífill (Hieracium magnidens)

Description

Undafífill með blaðhvirfingu á blómgunartíma og eitt til tvö stöngulblöð. Körfur oftast tvær til sex, blómin gul.

Blað

Plöntur með blaðhvirfingu á blómgunartíma og oftast eitt til tvö stöngulblöð. Oft er eitt nokkuð stórt stöngulblað. Fyrir kemur að stöngulblöð vantar. Hvirfingblöð eru oft mismunandi að lögun á sömu plöntu, egglaga, tígullaga og breiðlensulaga eða þríhyrnd. Blöðin eru greinilega tennt, sérstaklega neðan til og eru tennur oft stórar og hvassar. Tennur ná oft niður eftir stilknum. Stutt, gul kirtilhár nokkuð auðfundin á blaðröndum. Blöð oftast græn en geta verið bláleit eða örlítið rauðleit. Stöngulblaðið er oft með hvössum, stórum tönnum. Blaðgrunnur hvirfingblaða er oft þver og blöð eru oft breiðust neðst. Blöðin mjókka því sjaldan smám saman niður að stilk en ef svo er eru þau oftast nokkuð áberandi tennt neðan til (Bergþór Jóhannsson 2004).

Blóm

Körfur oftast tvær til sex, jafnvel fleiri en stundum er aðeins ein karfa. Körfur í meðallagi stórar eða stórar. Stundum er ein karfan stór en aðrar smáar og þegar körfur eru margar geta þær verið smáar. Reifar oftast þéttloðnar af löngum broddhárum sem oftast eru bein. Grunnur háranna dökkur en framhlutinn oftast ljós. Kirtilhár á reifum stutt og gul eða frekar stutt og þá stundum gráleit. Stjarnhár eru stundum það fá og dreifð að erfitt er að finna nokkur en oft eru þau greinileg á jöðrum reifablaða, sérstaklega á ytri reifum. Reifablöð geta verið með talsverðu af stjarnhárum á baki en oftast eru þar aðeins fá stjarnhár. Stundum eru stjarnhár aðeins neðst á körfunni. Fjöldi stjarnhára og broddhára er talsvert breytilegur á reifum og örsjaldan eru broddhárin það dreifð að körfur verða frekar snöggar. Stílar á þurrkuðum plöntum oftast svartir en stundum mórauðir (Bergþór Jóhannsson 2004).

Aldin

Fræ með svifhárakransi.

Distribution map

Author

Hörður Kristinsson 2007

Biota

Tegund (Species)
Kvíslfífill (Hieracium magnidens)