Picture: Hörður Kristinsson
Sandmunablóm (Myosotis stricta)
Útbreiðsla
Þetta er fremur sjaldgæf jurt, vex einkum á norðanverðu Vesturlandi allt austur til Eyjafjarðar (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Búsvæði
Það vex oft í þurrum melum og sandbrekkum eða þurrum, snöggum brekkum móti suðri (Hörður Kristinsson 1998).
Lýsing
Lágvaxin jurt (5–10 sm) með fáum blöðum og litlum dökkbláum blómum. Blómgast í júní–júlí.
Blað
Einær jurt. Stöngullinn með fáum, lensulaga eða mjóöfugegglaga blöðum.
Blóm
Blómin í uppvafinni hálfkvísl fyrir blómgun sem réttir síðan úr sér og líkist þá klasa. Krónan örsmá, um 2 mm í þvermál, dökkblá, hvít innst við blómginið. Bikarinn fimmtenntur, klofinn til miðs eða dýpra, með útstæðum krókhárum. Fræflar fimm. Ein fræva. Blómleggir miklu styttri en bikarinn, aðlægir að stönglinum (Hörður Kristinsson 1998).
Aldin
Ferkleyft klofaldin (Hörður Kristinsson 1998).
Greining
Líkist helst gleym-mér-ei. Sandmunablómið þekkist frá henni á örstuttum aldinleggjum (styttri en bikarinn) og örsmáum, dökkbláum, klukkulaga blómum. Sandmunablómið er einnig minna í vexti.
Útbreiðsla: Sandmunablóm (Myosotis stricta)
Höfundur
Was the content helpful
Back to top