Bláklukka (Campanula rotundifolia)

Mynd af Bláklukka (Campanula rotundifolia)
Picture: Hörður Kristinsson
Bláklukka (Campanula rotundifolia)

Útbreiðsla

Bláklukka er algeng á austurlandi en sjaldgæf annars staðar. Líklegast er að þessa sérstöku útbreiðslu hennar megi skýra á þann hátt, að hún hafi snemma komið til Austurlands og náð að leggja það alveg undir sig. Hún hefur þar mjög samfellda útbreiðslu frá Þistilfirði suður um og vestur fyrir Skeiðará. Eftir landnám hefur hún fengið nýja möguleika á fjardreifingu með ferðum manna og hrossa en hvergi náð samfelldri útbreiðslu á því svæði. Hún er mest á láglendi en fer þó einnig allhátt upp eftir fjöllum, finnst stundum uppi í 500 m hæð eða hærra. Hæstu fundarstaðir hennar eru Teitutindur í Mjóafirði 1000 m, Herfell í Loðmundarfirði 900 m og í suðurhlíðum Háaxlareggja í Stöðvarfirði í 850 m hæð (Hjörleifur Guttormsson) (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Búsvæði

Hún vex einkum í graslendi og móum en einnig í skóglendi og klettum (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Meðalhá jurt (15–30 sm) með fagurgrænum, mislöguðum blöðum. Blómstrar bláum klukkum í júlí–ágúst.

Blað

Stöngullinn er blöðóttur, einkum neðan til. Blöðin hárlaus, stofnblöðin stilklöng með hjartalaga eða nær kringlótta blöðku, sljótennt. Ofar verða blöðin oddbaugótt, síðan lensulaga eða striklaga, þau efstu heilrend (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru oftast eitt til tvö á stöngli en stundum fleiri. Krónan klukkulaga, 2–3 sm á lengd með fimm odddregnum sepum að framan. Bikarinn hárlaus, klofinn 2/3 niður, bikarfliparnir striklaga, um eða tæpur 1 sm á lengd. Fræflar fimm. Ein fræva með þrjú fræni (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist fjallabláklukku en hún er með hærðan bikar, vantar kringlótt stofnblöð og hefur aðra stærð og lögun á blómum (Hörður Kristinsson 1998).

Útbreiðsla - Bláklukka (Campanula rotundifolia)
Útbreiðsla: Bláklukka (Campanula rotundifolia)

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |