Gullkollur (Anthyllis vulneraria)

Mynd af Gullkollur (Anthyllis vulneraria)
Picture: Hörður Kristinsson
Gullkollur (Anthyllis vulneraria)

Útbreiðsla

Líklegt er að gullkollur hafi verið fluttur inn sem fóðurjurt og þá í Selvog en þar er hvað mest af honum (Ágúst H. Bjarnason 1994). Nokkuð algengur á Reykjanesskaga og uppi í Mosfellssveit, annars mjög sjaldgæfur. Hann vex þó einnig við Loðmundarfjörð og Borgarfjörð eystri. Gullkollur hefur aðeins verið skráður á láglendi, hæst um 180 m í Stakkahlíð í Loðmundarfirði (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Gullkollurinn er einhver næringarmesta fóðurjurt ertublómaættarinnar en er þó ekki ræktaður sem slíkur lengur enda lágvaxinn. Í Selvogi gengur hann undir nafninu kattarkló (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Blómtoppar gullkolls hafa verið notaðir til lækninga og þá helst útvortis vegna sára. Eins hefur te af jurtinni verið gefið börnum með harðlífi. Að auki dregur gullkollur oft úr ógleði og uppköstum og hefur reynst vel á fyrstu stigum meðgöngu. Enn fremur hefur hann gefið góða raun gegn farveiki (bíl-, sjó- og flugveiki) (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Í sendnum, malarkenndum jarðvegi, þurru valllendi eða meðfram vegum (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Lágvaxin planta (10–15 sm) með gulum blómkollum. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Stofnstæðu blöðin stakfjöðruð, stilkuð. Endasmáblaðið langstærst, öfugegglaga; hin smáblöðin lensulaga eða striklaga, vantar stundum alveg. Stöngulblöðin jafnari að stærð (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru einsamhverf, mörg saman í loðnum kolli sem er með aflöngum, grænum reifablöðum neðst. Krónublöðin gul í endann, 12–15 mm á lengd. Bikarinn nokkru styttri, samblaða, kafloðinn, hvítleitur en fjólublár eða rauðbrúnn í endann, fimmtenntur. Fræflarnir tíu, samgrónir í pípu utan um frævuna neðan til. Ein löng fræva (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið er belgur, myndaður af einu fræblaði (Lid og Lid 2005).

Greining

Líkist engri íslenskri tegund.

Útbreiðsla - Gullkollur (Anthyllis vulneraria)
Útbreiðsla: Gullkollur (Anthyllis vulneraria)

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |