Picture: Hörður Kristinsson
Baunagras (Lathyrus japonicus)
Útbreiðsla
Fremur sjaldgæft. Það er afar viðkvæmt fyrir beit en getur orðið nokkuð áberandi þar sem lengi hefur verið beitarfriðun eða lítil beit, eins og t.d. á Ströndum (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Almennt
Baunagrasið vinnur köfnunarefni úr andrúmsloftinu með aðstoð gerla í rótarhnúðum og bætir þannig jarðveginn eins og ýmsar aðrar tegundir af ertublómaætt. Má oft sjá stóra, græna, kringlótta ræktarbletti á sendnum fjörukömbum þar sem baunagrasið hefur náð að breiða úr sér, t.d. á Hornströndum. Það er annars eftirsótt af sauðfé og viðkvæmt fyrir beit (Hörður Kristinsson 1998).
Búsvæði
Sendinn jarðvegur, oftast nálægt sjó, ýmist við fjörukamba eða uppi á sjávarbökkum, sjaldnar í klettum (Hörður Kristinsson 1998).
Lýsing
Fremur lágvaxin planta (15–25 sm) með einsamhverf, fjólublá blóm. Blómgast í júlí.
Blað
Laufblöðin fjaðurskipt með þremur til fjórum smáblaðpörum. Smáblöðin sporöskjulaga eða oddbaugótt, 15–20 mm á lengd og um 5–10 mm á breidd, endablaðið og oft næsta blaðpar ummyndað í vafþræði. Axlablöðin skakkhjartalaga eða skakkþrístrend, oft um 1 sm á breidd og 1,5 sm á lengd (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Blómin eru einsamhverf, 2–2,5 sm á lengd, oftast tvö til fjögur saman í legglöngum klasa í blaðöxlunum. Krónublöðin fimm, fjólublá, með hliðsveigðum fána sem oft er meir en 1 sm á breidd. Bikarinn 8–9 mm á lengd með fimm tönnum. Fræflar tíu. Ein fræva (Hörður Kristinsson 1998).
Aldin
Flatur belgur, 4–7 sm á lengd, langyddur (Hörður Kristinsson 1998).
Greining
Baunagrasið þekkist frá giljaflækju á stærri og rauðari blómum, færri og breiðari smáblöðum.
Útbreiðsla: Baunagras (Lathyrus japonicus)
Höfundur
Was the content helpful
Back to top