Kornsúra (Bistorta vivipara)

Distribution

Kornsúra er ein algengasta jurt á Íslandi og vex í alls konar landi. Hún finnst frá láglendi upp í 1150 m hæð í fjöllunum. Hæstu fundarstaðir eru í 1290 m í Steinþórsfelli í Esjufjöllum, 1240 m á Staðargangnafjalli á Tröllaskaga og í 1220 m í hlíð Litlahnjúks í Svarfaðardal og í Kirkjufjalli við Hörgárdal (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

In General

Æxlikornin ganga einnig undir nafninu vallarkorn og voru notuð til matar. Eins er jarðstöngullinn sætur og vel ætur enda sækja gæsir nokkuð í hann. Hann er grófur og snúinn og mögulega er það þess vegna sem jurtin hefur fengið nöfnin höggormsjurt og dreki. Vegna læknismáttar síns hefur jurtin einnig gengið undir nafninu kveisugras (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Rótin er nýtt til grasalækninga en hún er góð við særindum og blæðingum í meltingarvegi auk niðurgangs. Eins er gott að útbúa skol gegn tannholdsbólgu, særindum í leggöngum og nota seyði á sár sem illa gróa (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Jurtin inniheldur t.a.m. barksýrur og galleplasýru (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Habitat

Vex í flestum gróðurlendum, mólendi, bollum, mýrum, melum og flögum, jafnt til fjalla sem í byggð (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Description

Fremur lágvaxin planta (8–20 sm) með hvítum blómum í axleitum klasa á stöngulenda. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Blöðin stilkuð, blaðkan egglensulaga eða egglaga, 2–6 sm á lengd, 5–15 mm á breidd, dökkgræn og gljáandi á efra borði en ljósgræn neðan. Blaðrendur niðurorpnar, miðstrengur áberandi (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru hvít, stundum bleik eða grænleit, stuttleggjuð í axleitum klasa á stöngulendanum. Blómhlífin einföld, fimmdeild, blómhlífarblöðin 3–4 mm á lengd, öfugegglaga eða perulaga. Bikarblöð vantar en himnukennd, móleit stoðblöð eru á milli blómanna. Fræflar sex til átta, frjóhirslur dökkfjólubláar. Ein þrístrend fræva með þrem stílum (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Neðst í blómskipaninni er oftast mikið af æxlikornum (fuglakorn) í stað blóma; þau eru brún, rauð eða mógræn að lit (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Distribution map

Author

Hörður Kristinsson 2007

Vex í flestum gróðurlendum, mólendi, bollum, mýrum, melum og flögum, jafnt til fjalla sem í byggð (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Biota

Tegund (Species)
Kornsúra (Bistorta vivipara)