Picture: Hörður Kristinsson
Ólafssúra (Oxyria digyna)
Útbreiðsla
Fremur algeng um allt land, einkum til fjalla (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Almennt
Ólafssúran á sér mörg nöfn, sem dæmi má nefna bergsúra, fjallakál, hofsúra, hrútablaðka, kálsúra, lambasúra og súrkál (Ágúst H. Bjarnason 1994).
Nytjar
Ólafssúra hefur svipaða eiginleika og túnsúran hvað viðkemur grasalækningum (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998) og blöðin eru að sama skapi bragðgóð (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Búsvæði
Vex einkum í skuggsælum giljum, skorningum, melum, urðum og fjallahlíðum (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Lýsing
Meðalhá planta (15–40 sm) með nýrlaga blöð og græn blóm í löngum klasa. Blómgast í maí–júní.
Blað
Blöðin þykk, nýrlaga, handstrengjótt, 2–6 sm í þvermál, stilklöng, hárlaus, flest stofnstæð. Blaðfóturinn myndar slíður um stöngulinn (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Blómin smá, mörg saman í samsettum, klasakenndum blómskipunum á stöngulendunum. Blómhlífarblöðin fjögur, græn, nær kringlótt, misstór, 1–2 mm á lengd. Fræflar sex með gulum eða rauðbleikum frjóhirslum. Ein fræva með tveim stílum, frænin rauð, margskipt (Hörður Kristinsson 1998).
Aldin
Aldinið tvívængjuð hneta sem stendur töluvert út úr blóminu, 3–5 mm á lengd (Hörður Kristinsson 1998).
Greining
Líkist engri annarri íslenskri tegund, auðþekkt frá öðrum súrum á blaðlögun.
Útbreiðsla: Ólafssúra (Oxyria digyna)
Höfundur
Was the content helpful
Back to top