Blóðarfi (Polygonum aviculare)

Mynd af Blóðarfi (Polygonum aviculare)
Picture: Hörður Kristinsson
Blóðarfi (Polygonum aviculare)

Útbreiðsla

Algengur heima við bæi og gripahús um allt land (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Blóðarfi hefur gengið undir ýmsum nöfnum: Hnútagras, rauðarfi, tunguarfi og oddvari, hlaðarfi, veggjaarfi, veggjahrís, varpaarfi og varpalyng. Fræ blóðarfans eru vinsæl af fuglum til átu og því hefur hann einnig verið kallaður fuglaarfi og fuglabaunir (Ágúst H. Bjarnason 1994). Blóðarfabreiður eru stundum kallaðar tittlingaakrar þar sem smáfuglarnir sækja svo í þær. Fræið var raunar einnig nýtt til manneldis (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998). Eitt sinn var því trúað að blóðarfaseyði stöðvaði vöxt barna (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Blóðarfi er þekktur sem lækningajurt. Hann hefur verið notaður til að stöðva blæðingar, þá sérstaklega í meltingarvegi, losna við steina eða sand úr þvagfærum og virkar mjög vel gegn niðurgangi. Duft unnið úr jurtinni má einnig nota til að stöðva blóðnasir (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Plantan inniheldur m.a. kísilsýru, antrakínóna, barkunga og sápunga (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Hlaðvarpar og athafnasvæði, haugstæði og nágrenni útihúsa, einkum þar sem húsdýraáburður er í jörðu (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Fremur lágvaxin planta (10–35 sm) með þykkum blöðum og græn og hvít blóm í blaðöxlunum. Blómgast í júní.

Blað

Stönglar venjulega marggreindir, oft jarðlægir eða uppsveigðir en stundum uppréttir. Blöðin öfugegglaga eða sporbaugótt, heilrend, hárlaus, 1–3 sm á lengd og 4–12 mm á breidd með himnukenndu, stundum rauðleitu slíðri við blaðfótinn (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin standa nokkur saman í blaðöxlunum. Blómhlífin einföld, fimmdeild. Blómhlífarblöðin græn innan til með hvítum jaðri og oft rauð eða bleik í endann, 3–4 mm á lengd. Fræflar sex til átta. Ein þrístrend fræva með þrem stílum (Hörður Kristinsson 1998).

Afbrigði

Blóðarfa er skipt í nokkrar undirtegundir og hafa tvær þeirra verið skráðar hérlendis, ssp. boreale og ssp. neglectum (Jonsell o.fl. 2000).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Útbreiðsla - Blóðarfi (Polygonum aviculare)
Útbreiðsla: Blóðarfi (Polygonum aviculare)

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |