Maríuvöttur (Alchemilla faeroënsis)

Distribution

Vex aðeins á Austurlandi en er þar nokkuð algengur, ekki síst til fjalla. Auk hinnar samfelldu austfirsku útbreiðslu hefur maríuvötturinn stungið sér niður nyrst í Köldukinn og í Flateyjardal og einnig við Auðbjargarstaði og Fjöll í Kelduhverfi. Maríuvötturinn vex frá láglendi upp í 600–650 m hæð, hæst fundinn í 800 m á Teitutindi og 725 m á Dalatindi í Mjóafirði (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Habitat

Grónir bollar, lækjarhvammar og hlíðar (Hörður Kristinsson 1998).

Description

Fremur smávaxin jurt (10–15 sm) með gulgrænum blómum. Blöðin flipótt, nokkuð skert og tennt. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Stofnblöðin stilklöng (6–10 sm). Blaðkan fimm- til sjöflipótt, 4–8 sm í þvermál, skert niður til miðs eða dýpra. Fliparnir reglulega tenntir í endann; jarðstöngull gildur (0,5–1 sm) (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru í þéttum blómskipunum út úr blaðöxlunum, 3–4 mm í þvermál. Krónublöð vantar. Bikarblöð fjögur, gulgræn, odddregin með hárskúf í endann; stuttir og mjóir utanbikarflipar á milli þeirra. Fræflar fjórir, ein fræva með einum hliðstæðum stíl (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið er hneta (Lid og Lid 2005).

Greining

Maríuvöttur minnir mjög á ljónslappa og maríustakk í útliti. Blómin eru nánast eins en blöðin eru frábrugðin. Þau hafa grynnri skerðingar en á ljónslappa en dýpri skerðingar en á maríustakki (Hörður Kristinsson 1998).

Distribution map

Author

Hörður Kristinsson 2007

Grónir bollar, lækjarhvammar og hlíðar (Hörður Kristinsson 1998).

Biota

Tegund (Species)
Maríuvöttur (Alchemilla faeroënsis)