Skotinn örn og brenndir varphólmar

07.05.2007
Arnarhræ í röntgenmyndatöku
Picture: Kristinn Haukur Skarphéðinsson

Hrund Ýr Óladóttir dýralæknir röntgenmyndar arnarhræið á Dýraspítalanum í Víðidal. Skjannahvítt stél sýnir að þetta er fullorðinn fugl.

Illa lítur út með arnarvarp í ár. Aðeins er vitað um 33 arnarhreiður nú í vor samanborið við allt að 44 á síðustu árum. Arnarstofninn er nú talinn 64 fullorðin pör og virðist standa í stað eftir hægan en samfelldan vöxt um langt skeið. Tæpur helmingur arnarpara hefur því ekki orpið að þessu sinni en ernir verpa í apríl. Ekki er ljóst hvað veldur en veðráttan í vor og síðla vetrar var örnum hagstæð og var búist við góðu arnarvarpi.

Meira hefur borið á vísvitandi truflun á varpslóðum arna en endranær og sáust merki um slíkt á 12 varpsvæðum af 75 sem könnuð voru. Varphólmar voru brenndir á tveimur svæðum, grjót borið í hreiður og hræður og flögg sett upp til að fæla erni frá óðulum, þrátt fyrir skýr ákvæði í lögum um friðhelgi arnarhreiðra og nánasta umhverfis þeirra. Þrátt fyrir alfriðun í nær heila öld finnast öðru hverju skotnir ernir. Í lok apríl fannst nýdauður, fullorðinn örn við Breiðafjörð og sáust a.m.k. fjögur högl á röntgenmynd sem tekin var af fuglinum.

Náttúrufræðistofnun Íslands vaktar arnarstofninn í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands og Náttúrustofurnar í Stykkishólmi, Bolungarvík og Sandgerði.

Högl í arnarhræi
Picture: Náttúrufræðistofnun Íslands

Fjögur högl fundust á röntgenmyndum og sjást tvö þeirra greinilega neðarlega á myndinni og það þriðja óglöggt ofar og til vinstri.