Ráðstefna um fléttur af fjörusvertuætt

05.06.2007

Dagana 7.-11. júní n.k. verður haldin ráðstefna um fléttur af fjörusvertuætt á Akureyri. Ráðstefnan er haldin af Akueyrarsetri Náttúrufræðistofnunar í samvinnu við Viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri. Starri Heiðmarsson, fagsviðsstjóri í grasafræði við Náttúrufræðistofnun, hefur veg og vanda af skipulagningu ráðstefnunnar en hana munu sækja 11 erlendir sérfræðingar. Þetta er í annað skiptið sem sérfræðingar um fjörusvertuætt hittast á ráðstefnu en fyrri ráðstefnan var haldin í Graz í Austurríki 1997.

Fléttur af fjörusvertuætt skera sig frá öðrum fléttum á margan hátt. Þær þroska aska í skjóðum meðan flestar aðrar fléttur eru disksveppir en það var ekki fyrr en með hjálp sameindafræðilegra aðferða sem tókst að staðsetja fjörusvertuættina í sveppakerfinu og tilheyra þær flokknum Eurotiomycetes. Annað sérkenni fléttutegunda af fjörusvertuætt er að þær eru flestar bundnar við vot búsvæði og eru einu flétturnar sem vitað er til að geti vaxið neðan sjávarmáls en grænsverta , Verrucaria mucosa, vex á fjörusteinum og klöppum sem einungis koma úr kafinu á fjöru.

Tegundir af fjörusvertuætt vaxa oft við vötn og straumvötn einkum þar sem tímabundinnar vætu gætir. Hér má sjá búsvæði margra tegunda við Lagarfljót. Ljósm. Starri Heiðmarsson.

Á Íslandi eru þekktar 67 tegundir af fjörusvertuætt, Verrucariaceae. Útbreiddust þeirra er líklega fjörusverta, Verrucaria maura, sem vex á sjávarklöppum í sjávarmáli um allt land og litar klappirnar svartar. Fleiri tegundir eru bundnar sjávarklöppum auk þess sem margar tegundir ættarinnar vaxa á votum klettum ýmist í seytlum eða á ströndum stöðuvatna og vatnsfalla.

Dagskrá ráðstefnunnar er á þá leið að þrír dagar fara í fyrirlestrahald og síðan verður farið í tveggja daga vettvangsferð. Þá gefst tími til að rannsaka sýni sem safnast í ferðunum. Þar sem margar ættkvíslir fjörusvertuættar eru erfiðar í greiningu má reikna með miklum árangri af vettvangsferðunum sérstaklega hvað varðar nýjar tegundir fyrir Ísland.

Ráðstefnan er styrkt af Akureyrarbæ gegnum Akureyrarsjóð Háskólans á Akureyri


 

Í Rannísblaðinu sem kom út í mars s.l. má lesa meira um þessa ráðstefnu á bls. 26.