Rjúpan og árstíðirnar

21.11.2007

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur haft afnot af sýningarglugga í biðstöð Strætó á Hlemmi síðan í febrúar sl. þegar örsýningin „Hefurðu rekist á hvítabjörn?“ var sett upp í tengslum við Safnanótt. Sú sýning vakti mikla athygli og ánægju hjá gestum og gangandi og því var ákveðið að halda þessu framtaki áfram. Nú er í gangi fjórða örsýning Náttúrufræðistofnunar á Hlemmi og fjallar hún um rjúpuna.

Fálki með rjúpu í hreiðri sínu. Ljósm. Anette Th. Meier.

Rjúpan er einkennisfugl íslenskra móa og fjalla og er eini villti hænsfuglinn okkar. Utan Íslands finnast rjúpur á norðurhjara allt í kringum norðurpólinn. Rjúpan er grasbítur. Hún er staðfugl á Íslandi en fuglarnir geta ferðast landshorna á milli úr sumarhögum í vetrarhaga og til baka. Stofnstærð rjúpunnar er mjög breytileg; stofninn rís og hnígur með reglubundnu millibili og sveiflan tekur rétt liðlega 10 ár. Í mestu rjúpnaárum skiptir stofnstærð milljónum fugla að hausti en er vel innan við hálfa milljón þegar minnst er.

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands sáu um að koma upp sýningu um rjúpuna; Ólafur K. Nielsen fuglafræðingur skrifaði texta, Birta Bjargardóttir, Anette Th. Meier, Ágúst Ú. Sigurðsson og Þorvaldur Þór Björnsson sáu um hönnun, útlit og uppsetningu sýningarinnar. Þorvaldur Þór Björnsson er hamskeri og sá um uppstoppun á dýrunum. Strætó bs. og starfsfólki Strætó á Hlemmi er þakkað fyrir velvild og aðstoð.

Örsýningar NÍ á Hlemmi hafa verið vinsælar meðal gesta og gangandi. Ljósm. Anette Th. Meier.

Rjúpan og árstíðirnar verður til sýnis fram á næsta ár, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvað tekur við af þeirri sýningu.

Sjá einnig "Hvítabjörninn vinsæll á Safnanótt"