Bernarsamningurinn um vernd villtrar náttúru í Evrópu 30 ára. Aðildarríki orðin 50 að tölu og forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands endurkjörinn forseti samningsins

01.12.2009
Bernarsamningurinn um vernd villtra dýra og plantna og búsvæða þeirra í Evrópu var samþykktur og lagður fram til undirritunar í Bern í Sviss 19. september 1979. Í tilefni af þessu 30 ára afmæli samningsins var árlegur fundur aðildarríkjanna haldinn í Bern 23. – 26. nóvember sl. í boði svissnesku ríkisstjórnarinnar. Þetta var í fyrsta sinn í sögu samningsins að fundurinn er haldinn utan Evrópuráðsins í Strasbourg í Frakklandi þar sem hann er vistaður. Fundurinn, sem var vel sóttur af aðildarríkjum, áheyrnarríkjum og alþjóðlegum samningum og samtökum, markaði tímamót þar sem fjöldi aðildarríkja varð 50 ríki með aðild Bosníu-Herzegóvínu, Svartfjallalandi og Georgíu. Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og forseti samningsins setti fundinn og stýrði honum (opnunarávarp). Hann var einróma endurkjörinn í fundarlok að tillögu ríkja Evrópusambandsins. Fundurinn samþykkti sérstaka yfirlýsingu, The Bern Declaration, um framtíðaráherslur á sviði náttúruverndar í tengslum við ár Sameinuðu þjóðanna, 2010, um líffræðilega fjölbreytni.

Trausti Baldursson, frá Náttúrufræðistofnun, sat fundinn fyrir Íslands hönd. Snorri Baldursson, frá Náttúrufræðistofnun og formaður sérfræðinganefndar Bernarsamningsins um loftslagsbreytingar og líffræðilega fjölbreytni, flutti skýrslu nefndarinnar á fyrsta degi fundarins.

Ýmsar ályktanir voru samþykktar á fundinum og má sjá þær í fundargerð 29. fundar (pdf).

Frá opnunarathöfn fundarins. Fulltrúar svissneskra stjórnvalda og Evrópuráðsins ásamt Jóni Gunnar Ottóssyni, forseta samningsins (sem situr fyrir miðju).