Vetrarfuglar á Suðvesturlandi í 50 ár - hrun í svartbaksstofninum

21.12.2009

 

Vetrarfuglar hafa verið taldir um jólaleytið í nær 60 ár eða frá 1952. Sjálfboðaliðar annast þessar talningar sem ná nú til um 150 svæða um land allt. Niðurstöður áranna 2002-2008 eru aðgengilegar á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Á ráðstefnu Líffræðifélagsins í nóvember 2009 kynntu þau Guðmundur A. Guðmundsson, Svenja N.V. Auhage og Kristinn Haukur Skarphéðinsson langtímavísitölur fyrir 19 algengar fuglategundir á Suðvesturlandi (1959-2008) (sjá bls. 60). Þar kom m.a. fram að svartbaki hefur fækkað gríðarlega á þessum tíma. Hvítmáfi fjölgaði fram undir 1985 en hefur verið á stöðugri niðurleið síðan. Dílaskarfur og toppskarfur sveiflast í takt við talningar á varpstöðvum, sá fyrrnefndi hefur verið i vexti undanfarin ár en toppskarfi fækkar. Vaðfuglarnir sendlingur, tildra og stelkur hafa fylgst lengi að, en hefur ásamt tjaldi fækkað um helming í fjörum á Suðvesturlandi undanfarin sjö ár.

 

Vetrarfuglatalningar hófust á Íslandi árið 1952 að frumkvæði Finns Guðmundsssonar, fuglafræðings (1909-1979) með talningu á 11 svæðum. Næstu árin fjölgaði svæðum í nokkra tugi og hélst það svo fram til 1980. Síðustu ár hafa um og yfir 150 svæði verið talin milli jóla og nýjárs um land allt.

Haustið 2009 fór fram fyrsta úrvinnsla gagna með það að markmiði að fá fram svæðisbundnar vísitölur fyrir algenga vetrarfugla síðustu 50 árin (1959-2008). Lengstu samfelldu talningaraðirnar og mesta átakið í talningum er á Suðvesturlandi. Því var ákveðið að binda úrvinnslu við ströndina frá Þjórsá í Grunnafjörð. Þessi strandlengja er um 541 km löng og hefur verið talin á alls 44 misstórum svæðum (399 km). Þau voru sex árið 1959 en upp á síðkastið hafa 30-37 verið talin ár hvert. Til þess að vega upp á móti breytilegu átaki á milli ára var fjöldi fugla á hverju svæði staðlaður sem fjöldi fugla á hvern kílómeter strandar. Síðan var reiknaður meðalfjöldi fugla á km á öllum svæðum sem talin voru hverju sinni. Loks var reiknað 5 ára keðjumeðaltal og staðalskekkja til þess að jafna gögn. Þetta var gert fyrir 19 algengustu tegundir vetrarfugla. Hér eru sýnd nokkur dæmi um niðurstöður. Mikilvægt er að hafa í huga að þetta eru vísitölur frá Suðvesturlandi og óvíst hvort þær endurspegli landið allt. Næstu stig úrvinnslu er að skoða aðra landshluta og sjá hvort vísitölur þar eru í takt við SV-horn landsins.

Svartbakur - meðaltal fugla á km strandar

Svartbakur. Fuglaáhugamenn hafa lengi talið að svartbaki hafi fækkað mjög, minnugir stórra vetrarhópa á 7. og 8. áratug síðustu aldar. Tölulegar upplýsingar hefur skort þessu til stuðnings, en fækkun varpfugla víða um land hefur bent í sömu átt. Niðurstöður vetrarfuglatalninga á Suðvesturlandi sýna svo ekki verður um villst að svartbaki hefur fækkað um allt að 90% á 50 árum, úr 80 fuglum/km strandar árið 1960 í 8 fugla/km síðustu ár. Vinalegt hlakk veiðibjöllunnnar á eggtíð hefur einnig hljóðnað með Sundum og máfum eru brugguð launráð í Ráðhúsi Reykjavíkur. Svartbakur var settur á válista árið 2000 vegna stöðugrar fækkunar. Árið 1995 voru samkvæmt opinberum veiðiskýrslum skotnir 36 þúsund svartbakar, 20 þúsund árið 2000 og 16 þúsund árið 2005 (sjá veiðitölur á vef Umhverfisstofnunar).

Hvítmáfur - meðaltal fugla á km strandar

Hvítmáfur hefur ekki verið vaktaður hérlendis. Niðurstöður vetrarfuglatalninga á Suðvesturlandi sýna afar athyglisverðar breytingar. Hvítmáfi virðist hafa fjölgað jafnt og þétt frá 1960 til 1985 (þreföldun) en síðan fækkað aftur næstu 25 árin og er nú álíka algengur og um 1960. Takið eftir frávikum 2004 og 2005 sem hafa veruleg áhrif á keðjumeðaltal. Þá voru óvenju margir hvítmáfar skráðir við Akranes. Líklegt er að hagstæð fæðuskilyrði hafi dregið þangað fugla af stærra svæði.

Skarfar - vísitala

Skarfar. Miklar sveiflur virðast í stofnum dílaskarfa og toppskarfa síðustu 50 árin og eru stofnbreytingar þeirra sjaldnast í takt. Dílaskarfar hafa verið vaktaðir árlega síðan 1994 (Arnþór Garðarsson 2008, Bliki 29: 1-10). Fjöldi hreiðra í Faxaflóa og meðalfjöldi fugla/km strandar á Suðvesturlandi á árabilinu 1994-2008 sýna mjög góða fylgni. Færri heildartalningar eru til á toppskörfum (Arnþór Garðarsson & Ævar Petersen 2009, Bliki 30: 9-25). Endurteknar talningar í einstökum toppskarfsbyggðum sýna miklar svæðisbundnar breytingar. Samfelld fjölgun frá 1975 í nokkrum byggðum í Faxaflóa er ekki í góðu samræmi við fjölda vetrarfugla, sem bendir til að þeir séu komnir af mun stærra svæði. Helstu varpstöðvar toppskarfs eru við Breiðafjörð.

Sendlingur - meðaltal fugla á km strandar

Sendlingur sveiflast mikið í fjörum Suðvesturlands og er tífaldur munur á þéttleika hans milli áranna 1967-69 annars vegar (hafísár) og 1987-88 hins vegar. Sendlingi virðist hafa fækkað mjög hratt síðustu fimm árin. Hann er útbreiddur í fjörum umhverfis landið og því verður athyglisvert að sjá vísitölur úr öðrum landshlutum.

Vaðfuglar - vísitala

Vaðfuglar. Ólíkt sendlingi eru tjaldur, stelkur og tildra meira og minna bundin við fjörur Suðvesturlands að vetrarlagi. Ótrúlega góð fylgni er með breytingum á fjölda sendlings, stelks og tildru síðan fyrir 1985. Tjaldur sýnir á hinn bóginn allt annað mynstur. Öllum fjórum tegundunum hefur fækkað verulega (50%) síðustu sjö árin eins og vakin var athygli á í Blika 29 (Vetrarfuglatalningin 2008, bls. 62-64), en þar var vísitalan reiknuð með öðrum hætti úr gögnum frá landinu öllu.

 

Guðmundur A. Guðmundsson, Svenja N.V. Auhage og Kristinn Haukur Skarphéðinsson