Iðandi líf í jólatré

17.01.2011

Íbúi í Hafnarfirði kom með væna grein af jólatrénu sínu til Náttúrufræðistofnunar en tréð hafði reynst líflegra en við var búist. Tréð, sem hann hafði keypt í ræktunarreit í Mosfellsbæ, tók að iða af lífi þegar það var komið á sinn stað inni í stofu.

Asparglytta. ©EÓ

Það var asparglyttan alræmda sem hafði fylgt trénu en hún er annálaður skaðvaldur á öspum og víðitegundum ýmiskonar. Hátt í hundrað bjöllur duttu af trénu þegar eitri var úðað á það. Asparglytta er nýlegur landnemi og afar efnilegur skaðvaldur á trjám og runnum í görðum okkar. Hún er nú orðin einkar fjölliðuð í Mosfellsbæ, í nágrenni meintra upptaka tegundarinnar hér á landi, og eykur hún útbreiðslu sína inn í höfuðborgina jafnt og þétt með hverju árinu.

Á haustin koma fullorðnar asparglyttur, þ.e. bjöllurnar grænu, sér fyrir til vetrardvalar, gjarnan í sprungum í trjáberki og undir lausum berki. Ofangreint dæmi úr Hafnarfirði gefur til kynna að grenitré veiti glyttunum ákjósanleg vetrarskjól. Því þarf vart að fjölyrða frekar um það hve virk flutningsleiðin er með jólatrjám út úr Mekka asparglyttunnar.

Lesa má frekari fróðleik um asparglyttu á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.