Náttúrufræðistofnun Íslands formlega tekin til starfa í Urriðaholti í Garðabæ

17.01.2011

Náttúrufræðistofnunar Íslands tók formlega til starfa í nýjum heimkynnum í Urriðaholti í Garðabæ síðastliðinn föstudag. Við opnunina tóku til máls Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar, Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ, Eyþór Einarsson elsti starfsmaður Náttúrufræðistofnunar og Ólafur Helgi Ólafsson stjórnarformaður Náttúrufræðihúss ehf.

Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, sagði við opnunina að hin nýju heimkynni í Urriðaholti væru mikið framfaraspor, ekki síst þegar kemur að öruggri varðveislu verðmætra náttúrusýna og aðgengi að þeim til rannsókna.

Nýja húsið er sérstaklega hannað fyrir starfsemi Náttúrufræðistofnunar. Það er 3.500 fermetrar að stærð og nýjustu tækni er beitt til að tryggja varðveislu náttúrugripa, sem margir eru mjög verðmætir og sjaldgæfir.

Bygging hússins hófst í október 2009. Arkís hannaði húsið og Ístak var aðalverktaki við bygginguna. Glerhjúpur setur sterkan svip á bygginguna og er helsta einkenni hennar. Auk þess myndar hann veðurhlíf og tryggir betur virkni náttúrulegrar loftræstingar, jafnvel í verstu veðrum.

Nýtt hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ. Ljósm. Vigfús Birgisson.
Nýtt hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ. Ljósm. Vigfús Birgisson.
Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar bauð Náttúrufræðistofnun velkomna í Garðabæinn og sagðist gjarnan vilja sjá að sýningarhúsnæði Náttúruminjasafns yrði reist við hliðina á húsnæði stofnunarinnar í Urriðaholti. Ljósm. Kjartan Birgisson. Eyþór Einarsson grasafræðingur hefur starfað hjá Náttúrufræðistofnun síðan 1959 og flutti með stofnuninni í "bráðabirgðahúsnæði" hennar að Hlemmi það ár. Eftir rúmlega hálfrar aldar veru stofnunarinnar á Hlemmi var Eyþór að vonum ánægður með nýtt húsnæði Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti. Ljósm. Kjartan Birgisson.


Nýtt hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ. Ljósm. Vigfús Birgisson.
Nýtt hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ. Ljósm. Vigfús Birgisson.
Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra fengu að gjöf frá Náttúrufræðihúsi ehf. afsteypu af listaverkinu Lægð sem prýðir gólfið í anddyri hússins. Ljósm. Kjartan Birgisson. Ólafur Helgi Ólafsson, formaður stjórnar Náttúrufræðihúss ehf. afhenti afsteypuna af listaverkinu Lægð. Ljósm. Kjartan Birgisson.


Nýtt hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ. Ljósm. Vigfús Birgisson.
Nýtt hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ. Ljósm. Vigfús Birgisson.
Eftir ræðuhöldin var gestum boðið að skoða húsið og starfsmenn stofnunarinnar kynntu starf sitt. Ljósm. Kjartan Birgisson. Nýtt hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ. Ljósm. Vigfús Birgisson.

Hús Náttúrufræðistofnunar er eitt af fyrstu húsum hér á landi til að fá alþjóðlegu BREEAM umhverfisvottunina. Vottunin tekur til þeirra þátta byggingarinnar sem lágmarka neikvæð umhverfisáhrif hennar og stuðla að sjálfbærni.

Nýtt húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti gjörbreytir öllu starfsumhverfi stofnunarinnar og bætir mjög aðstöðu til rannsókna, fræðslu og varðveislu gripa. Ekki síst skiptir miklu máli að umfangsmikil og verðmæt gripasöfn stofnunarinnar komast loks í viðunandi húsnæði.

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur til starfa í Urriðaholti í Garðabæ - fréttatilkynning (pdf)