Breytingar eiga sér stað á lífríki landsins okkar

12.04.2011

Um þessar mundir verðum við vitni að umtalsverðum breytingum á lífríki Íslands. Talið er að hlýnandi loftslag eigi ríkan þátt í því ásamt ýmsum breytingum sem orðið hafa á högum og athöfnum okkar mannanna. Breytingar hafa orðið á búskaparháttum og landnýtingu með minnkandi beitarálagi búsmala því samfara. Minnkandi sauðfjárbeit sem dæmi hefur heilmikil keðjuverkandi áhrif á lífríkið almennt samfara hlýnandi loftslagi.

Smádýralífið tekur breytingum

Breytinga verður vart víðar en á fuglalífi og gróðurfari þó minna beri á því. Í fæstum tilvikum verða landsmenn mikið varir við breytingar á smádýrafánunni, enda kallast smádýr ekki svo af tilefnislausu. Á undanförnum misserum hefur verið reynt að vekja athygli á þessum þætti á vef Náttúrufræðistofnunar bæði í formi frétta og pistlaskrifa. Lögð hefur verið áhersla á að kynna til sögu tegundir sem eru nægilega stórar eða áberandi til að almenningur geti fylgst með þeim, en með því er aðeins hluti sögunnar sagður. Margt smátt sem fæstir taka eftir er einnig hluti af þessari þróunarsögu.

Ýmsar breytingar má greina á smádýralífinu. Sjá má breytingar sem verða á högum gamalgróinna tegunda, hingað berast nýjar tegundir af sjálfsdáðum og finna sér sess í náttúrunni og smádýr flytjast til landsins með varningi og ná fótfestu í görðum okkar og öðru nærumhverfi, jafnvel í húsum og híbýlum.

Gamalgrónar tegundir

Dæmi eru um að gamalgrónar tegundir smádýra sem hafa átt hér tiltölulega erfitt uppdráttar séu að eflast, þ.e. stofnar þeirra að stækka og nema ný landsvæði. Breyttar umhverfisaðstæður eru sumum tegundum í hag en öðrum síður og væntanlega eiga sér stað um þessar mundir mörg átökin á vígvöllum samkeppninnar milli tegunda.

Tvær fiðrildategundir skulu nefndar sem dæmi í þessu sambandi. Ertuygla, Melanchra pisi, var lengstum tiltölulega fátíð á sunnanverðu landinu en hefur verulega sótt í sig veðrið á undanförnum árum og útbreiðslumörkin færst norðar. Hún er átvagl mikið og er matseðillinn fjölbreyttur. Alaskalúpína verður stundum illilega fyrir barðinu á lirfunum og getur jafnvel aflaufgast gjörsamlega. Skógbursti, Orgyia antiqua, til þessa fágætt fiðrildi í syðstu sveitum landsins, er í hraðri fjölgun. Eins og ertuyglan leggur hann sér sitthvað til munns úr plönturíkinu, m.a. víðilauf. Í sumarbústaðalöndum hefur skógburstinn uppgötvað gnótt fæðu og er sums staðar farinn að skaða ræktaðan gróður, t.d. í Grímsnesi og nágrannasveitum.

Nýir landnemar smádýra

Um þessar mundir er landnámsgluggi fyrir smádýr af ýmsu tagi galopinn eins og mörg dæmi sýna. Smádýrin hafa tvær leiðir til að berast til landsins. Annars vegar er það flugleiðin með hagstæðum vindum frá meginlandi Evrópu og hins vegar flutningsleiðin með varningi ýmiss konar. Að sjálfsögðu er ekki í öllum tilvikum ljóst hvernig nýir landnemar hafa borist hingað en í ýmsum tilfellum er hömlulítill og varhugaverður innflutningur á gróðurvörum af fjölbreyttu tagi hafður undir grun.

Á vængjum yfir hafið

Það er alkunna að ýmis fleyg skordýr berast reglulega til landsins á eigin vængjum með loftmassa frá meginlandi Evrópu. Það eru ekki síst fiðrildi af ýmsum tegundum sem þar eiga í hlut en tvívængjur, skortítur og drekaflugur hafa einnig komið við sögu. Oftast eru slíkar tegundir þekktar og annálaðar flökkukindur frá suðlægum löndum álfunnar sem leggjast í ferðalög norður á bóg. Margar þeirra kunna að geta af sér nýjar kynslóðir á hinum norðlægu slóðum sem síðan forða sér suður á bóginn er haustar eða verða vetrarveðrum að bráð. Nokkur dæmi eru þekkt héðan um tegundir af þessu tagi en á seinni árum eru sterkar grunsemdir um að sumar þeirra nái nú orðið að þrauka veturinn, a.m.k. stundum. Þar ber helst að nefna kálmöl, Plutella xylostella, sem er langalgengastur gestanna, skrautyglu, Phlogophora meticulosa og garðyglu, Agrotis ipsilon. Yglurnar tvær eru með algengustu gestum með haustlægðum en berast stundum fyrr um sumar, verpa og fjölga sér.

Nýrra tegunda smádýra hefur orðið vart í villtri náttúru á undanförnum árum. Það getur að sjálfsögðu verið vandkvæðum bundið að segja til um hvort um nýja landnema sé að ræða eða öllu heldur áður fágætar tegundir sem hér hafa leynst faldar til þessa. Stráygla, Apamea remissa, er þó stórt og áberandi fiðrildi sem varla hefði getað leynst. Hún uppgötvaðist fyrst í Öræfum árið 2001 en nú tíu árum síðar hefur hún dreifst um allt Suðurland og er orðin nokkuð áberandi á höfuðborgarsvæðinu. Líkast til hefur stráygla borist til landsins af sjálfsdáðum.

Fíflalús - Uroleucon taraxaci
Stráygla - Apamea remissa
Fíflalús. ©EÓ
Stráygla. ©EÓ

Smádýr berast með mönnum

Smádýr hafa án vafa tekið að berast til landsins af mannavöldum strax með fyrsta skipi landnámsmanna. Slíkur innflutningur hefur vissulega átt sér stað allar götur síðan. Aðstæður hverju sinni hafa síðan ráðið því hvaða tegundir hafi náð fótfestu hvort heldur var til skamms tíma eða langframa. Í raun er fátt um það vitað hvers konar smádýralíf myndi ríkja á landinu nú ef maðurinn hefði ekki komið til. Án efa væri það frábrugðið því sem við þekkjum.

Smádýr berast stöðugt til landsins með varningi af flestu tagi. Það getur verið um að ræða tegundir sem lifa á viðkomandi varningi, t.d. ýmsar tegundir bjallna í kornvöru, fnyktítur (Pentatomidae) í grænmeti eða trjábukkar (Cerambycidae) og trjávespur (Siricidae) í viði. Smádýr lokast oft inni í umbúðum fyrir slysni án þess að tengjast viðkomandi vörum á nokkurn hátt. Um slíkt eru fjöldamörg dæmi. Algengt er að smádýr komi sér fyrir til vetrardvalar í köldum vöruskemmum og berist síðan yfir vetrarmánuðina með varningi þaðan hvert sem verða vill. Ágætt dæmi um það er páfiðrildi, Inachis io, en það barst til landsins í óvenjumiklum fjölda haustið 2010. Ýmsar tegundir sem falla undir ofangreindar skýringar hafa verið að ná fótfestu hér á landi á undanförnum árum, flestar innanhúss, ýmist í híbýlum eða köldum skemmum. Sem dæmi má nefna skemmukönguló, Tegenaria atrica, og leggjakönguló, Pholcus phalangoides. Garðaklaufhali, Forficula auricularia, á einnig heima í þessari umræðu en hann virðist hafa náð fótfestu í húsagörðum. Einnig má minnast á geitungana (Vespidae), en flestir þekkja sögu þeirra og er því ástæðulaust að bæta orðum við hana hér.

Þó margur nýliðinn í húsum okkar þyki til óþurftar stendur meiri ógn af ýmsum tegundum sem við flytjum inn ómeðvitað og ná fótfestu utanhúss. Slíkra nýjunga verður ekki síst vart í nærumhverfi okkar, þ.e. í görðum í borg og bæjum. Þar hefst landnám innfluttra tegunda gjarnan. Þó einhverjar nái hér fótfestu um tíma er framtíð þeirra ekki endilega trygg. Nefna má húsageitung, Vespula germanica, sem dæmi um tegund sem hafðist hér við í ríflega þrjá áratugi við litlar vinsældir en virðist hafa látið undan síga. Flestir nýliðanna fara hægt í sakirnar með að koma sér fyrir í villtri náttúrunni. Vegna sérhæfðra lífshátta eru og verða sumar tegundanna til einhverrar framtíðar háðar því skjóli sem manngert umhverfi veitir þeim og vissum garðagróðri til að lifa á. Þær þurfa jafnvel að bíða þess lengi upp á von og óvon að nauðsynlegur gróður berist út í náttúruna til að geta fylgt honum eftir. Aðlögunarferli og áfram hlýnandi loftslag kann með tíð og tíma að auka möguleika þeirra til lífsbjargar fjarri byggð. Einnig skal haft í huga að smádýr berast gjarnan með gróðurvörum úr þéttbýlinu í sumarbústaðalóðir á landsbyggðinni og geta beðið síns vitjunartíma þar.

Á vef Náttúrufræðistofnunar hefur verið vakin athygli á ýmsum nýjungum í nærumhverfi okkar sem sumar hverjar eru orðnar mönnum kunnar og á hvers manns vörum í umræðunni. Af kunnuglegum dæmum má nefna illa þokkaðar tegundir eins og spánarsnigil, Arion lusitanicus; asparglyttu, Phratora vitellinae; folaflugu, Tipula paludosa; og fíflalús Uroleucon taraxaci, og aðrar huggulegri eins og blaðflugu, Lyciella rorida; varmasmið, Carabus nemoralis; rauðhumlu, Bombus hypnorum; og ryðhumlu, Bombus pascuorum. Sjá einnig lista yfir nýja landnema. Það má hafa í huga að gjarnan er til þess litið að 10% tegunda nýrra landnema séu óæskilegar og til óþurftar í nýjum heimkynnum. Í upprunalegum heimkynnum fylgja flestum ef ekki öllum tegundum einhverjar tegundir sem byggja lífsafkomu sína á þeim og halda þeim í eðlilegum skefjum. Það er ekki tryggt að ný heimkynni búi yfir tegundum sem hafa hömlur á nýliðunum. Það má segja að lífríki garðanna okkar einkennist af ójafnvægi. Í görðum eru útlendar plöntutegundir ríkjandi. Gamalgrónar íslenskar tegundir smádýra kunna sumar hverjar að færa sér aðstæðurnar í nyt í óeðlilegu sambýli við ýmsa innflutta nýliða. Til að bæta gráu ofan á svart er gjarnan gripið til afdrifaríkra eiturherferða til að viðhalda því yfirbragði sem garðeigendur kjósa að hafa fyrir augum sínum.

Allt bendir til þess að innflutningur á gróðurvörum eigi ríkan þátt í að fjölga nýliðum í smádýrafánu garðanna okkar. Á hverju ári eru fluttar inn garðplöntur frá nágrannalöndum í stórum stíl. Hver hefur ekki farið í gróðrarstöðvar og gróðursölur á vorin, skoðað og dáðst að fallega blómstrandi runnum og ávaxtatrjám ýmiss konar? Einnig freistast til að taka slík skrauttré með sér heim í garðinn sinn til að njóta og hlúa vel að í von um að þau verði garðprýði til frambúðar? Menn skyldu hafa í huga að með þessu móti er ekki verið að flytja eina staka lífveru í garðinn. Trénu góða fylgir jarðvegshnaus og hvað er jarðvegshnausinn annað en heilt vistkerfi? Í honum leynist allt sem vistkerfi þarf til að dafna. Nefna má lággróður af öllu tagi, þ.e. þörunga og mosa, jarðvegssveppi sem enginn æðri gróður fæst þrifist án, einnig örverur eins og veirur, gerlar og frumdýr, og svo vissulega fjölfrumungar af ýmsu tagi, hjóldýr, þráðormar, liðormar, skordýr og áttfætlur, svo og sniglar allt upp í spánarsnigla.

Heimildir til innflutnings af þessu tagi, þ.e. plöntur í jarðvegshnausum, þyrfti að endurskoða frá grunni. Nær væri að búa íslenskum garðyrkjubændum aðstæður til að rækta hinar eftirsóttu skrautjurtir úr fræjum og stiklingum. Þannig má lágmarka hættuna á óæskilegum innflutningi fylgilífvera.

Á pödduvef Náttúrufræðistofnunar Íslands má kynna sér meira um flest þau kvikindi sem fram koma í þessari umfjöllun.

Þessi pistill birtist í Ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar 2010.