Erfðarannsóknir á fálkum

03.06.2011

Íslenski fálkastofninn (Falco rusticolus) er lítill og einangraður stofn en stofnbreytingar fálkans hafa verið vaktaðar í um þrjátíu ár. Sýnt hefur verið fram á að lítill erfðabreytileiki minnkar líkur stofna á að lifa af snöggar breytingar í umhverfinu. Mat á erfðabreytileika er því mikilvægt fyrir stofna í yfirvofandi hættu.

Lára Guðmundsdóttir

Lára Guðmundsdóttir heldur meistaravörn sína föstudaginn 3. júní á sviði líftækni við Auðlindadeild. Vörnin fer fram kl. 13:15 í fyrirlestrarsal M101 í aðalbyggingu HA, Miðborg. Meistararitgerðin ber titilinn: „Genetic diversity assessment and individual identification of gyrfalcon (Falco rusticolus) in Iceland.” Verkefni Láru var samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og Háskólans á Akureyri. Verkefnið var styrkt af Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri, Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar og Háskólasjóði KEA.

Þessari rannsókn er ætlað að bæta við þær vistfræðilegu upplýsingar sem nú þegar eru til um fálkann með það að markmiði að geta notað erfðaefni úr fjöðrum við erfðafræðilegar greiningar. Í þessum tilgangi voru sett upp þrjú fjölmögnunarhvörf með 13 örtunglum til arfgerðargreiningar fyrir fálka og skyldar tegundir. Niðurstöður arfgerðargreiningar með örtunglum á 80 einstaklingum úr íslenska fálkastofninum benda til þess að hér sé um að ræða einn einangraðan stofn og að erfðabreytileiki íslenska fálkastofnsins er svipaður öðrum fálkastofnum sem verpa á norðurslóðum. Að auki var sett upp skilvirk og áreiðanleg aðferð til kyngreiningar á fálkum með PCR. Með rannsókninni tókst því að þróa skilvirkar sameindaerfðafræðilegar aðferðir til arfgerða- einstaklings- og kyngreiningar.

Aðalleiðbeinandi er Dr. Kristinn P. Magnússon, prófessor í erfðafræði við Auðlindadeild HA, visterfðafræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyrarsetur og yfirmaður Rannsóknastofu í sameindaerfðafræði á Borgum.

Meðleiðbeinendur eru Dr. Ólafur K. Nielsen, vistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, sem hefur rannsakað fálkann í rúm þrjátíu ár og Dr. Oddur Vilhelmsson, dósent í líftækni við Auðlindadeild HA.

Andmælandi og prófdómari er Dr. Snæbjörn Pálsson, dósent í þróunarfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Snæbjörn hefur um áratugaskeið rannsakað erfðabreytileika í íslenskum lífverum, þ.e.  landfræðilegan breytileika til að greina upprunalandafræði tegunda, þróunarsögu þeirra og sérstöðu.