Náttúrufræðistofnun tekur þátt í Vísindavöku

21.09.2011
Náttúrufræðistofnun Íslands tekur í sjötta sinn þátt í Vísindavöku Rannís sem verður haldin næstkomandi föstudag, 23. september, í Háskólabíói. Yfirskrift sýningarinnar er Sveppir alls staðar og þar verður kynning á sveppum, eiginleikum þeirra og lífstíl auk þess sem matsveppum verður gefin sérstök athygli. 
Kóngsveppur, Boletus edulis. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir

Á Náttúrufræðistofnun Íslands eru stundaðar rannsóknir á sveppum og á vísindavöku fá gestir að kynnast mismunandi gerðum sveppa og ólíkum lífstíl þeirra, auk þess verður hægt að fræðast um matsveppi og tínslu þeirra. Ýmsir sveppir verða á staðnum og og skemmtilegt fræðsluefni í boði fyrir börnin. Sveppafræðingur stofnunarinnar, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, verður á staðnum og svarar spurningum gesta. Nánar má fræðast um sveppi á vef Náttúrufræðistofnunar.

Rannís stendur nú fyrir Vísindavöku í sjöunda sinn en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu í tengslum við Dag vísindamannsins. Markmiðið með Vísindavöku er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi.

Vísindavakan sem haldin er í Háskólabíói við Hagatorg stendur frá kl. 17.00 til kl. 22.00. Frekari upplýsingar um Vísindavöku er að finna á vef Rannís. Einnig er svokallað Vísindakaffi haldið í Reykjavík og á Akureyri dagana fyrir Vísindavöku.