Samantekt fuglamerkinga 2011 og 2012

10.07.2013

Teknar hafa verið saman niðurstöður fuglamerkinga fyrir árin 2011 og 2012. Árið 2012 merktu fjörutíu og fimm aðilar alls 10.109 fugla af 70 tegundum og tilkynnt var um 509 endurheimtur íslenskra merkja (439 innanlands og 70 erlendis) auk 88 erlendra merkja. Árið 2011 voru merktir alls 12.158 fuglar af 84 tegundum. Þá var tilkynnt um 556 endurheimtur íslenskra merkja (510 innanlands og 46 erlendis), auk 109 erlendra merkja.

Kría - Sterna paradisaea ©EÓ

Árið 2012 var snjótittlingur mest merkta tegund landsins í stað lunda sem lengi hefur vermt það sæti, en hjá honum hefur verið lítil nýliðun síðustu ár. Tíu mest merktu tegundir frá upphafi eru í dag snjótittlingur 75.948 fuglar merktir, 75.842 lundar, 58.344 skógarþrestir,  49.162 kríur, 33.690 ritur, 30.632 fýlar, 21.038 skúmar, 19.730 teistur, 15.720 þúfutittlingar og 15.371 langvía.

Fjölmörg aldursmet voru sett hvað varðar endurheimtur merktra fugla á árinu 2012 og eru tvö þeirra líklegast Evrópumet í þekktum aldri þeirra tegunda. Hvítmáfur nr. 232937 sem Trausti Tryggvason merkti sem ófleygan unga í Ármýrum í Helgafellssveit á Snæfellsnesi þann 2. júlí 1982 var orðinn 29 ára og fjögurra mánaða þegar hann fannst skotinn á Þyrilsnesi í Hvalfirði 25. september 2012. Flórgoði nr. 339160 sem Þorkell Lindberg Þórarinsson merkti sem fullorðinn fugl með hreiður, þá líklega a.m.k. tveggja ára gamall,  við Víkingavatn í Kelduhverfi var endurveiddur á sama stað 2543 dögum síðar a.m.k. 9 ára.

Sjá nánari umfjöllun um fuglamerkingar.