Villandi frétt Stöðvar 2

20.02.2015

Í kvöldfréttum Stöðvar 2, fimmtudaginn 19. febrúar sl. var m.a. fjallað um húsnæðismál Náttúruminjasafns Íslands, sem hafa verið nokkuð til umræðu undanfarið. Frétt Stöðvarinnar var um ýmis atriði mjög villandi og rangt farið með staðreyndir, og því nauðsynlegt að benda á nokkur atriði, sem vert er að leiðrétta.

Í upphafi fréttarinnar var sýnd mynd af gamla Sveins Egilssonar húsinu við Hlemmtorg í Reykjavík og sagt að þarna hafi Náttúruminjasafn Íslands verið til húsa frá 1967 til 2008, en eftir það í gömlu Loftskeytastöðinni við Brynjólfsgötu. Nú hafi því húsnæði verið sagt upp og húsnæðismál Náttúruminjasafnsins því í uppnámi.

Hlemmur
Picture: Erling Ólafsson

Náttúrufræðistofnun Íslands var til húsa á Hlemmi til ársins 2010.

Hér var afar frjálslega farið með staðreyndir vægt til orða tekið. Náttúruminjasafn Íslands er ný stofnun, sett á laggirnar með lögum  árið 2007 og hefur á skammri ævi til þessa ekki haft með höndum rekstur sýningarhúsnæðis, en skrifstofur þess hafa verið til húsa á Hallveigarstöðum við Túngötu og síðan í Loftskeytastöðinni síðustu ár.

- Náttúrufræðistofnun Íslands var hins vegar til húsa á Hlemmi í rúma hálfa öld eða þar til sú stofnun flutti í nýtt sérbyggt húsnæði í Urriðaholti í Garðabæ árið 2010.

Fréttinni fylgdu síðan myndir úr gripasöfnum Náttúrufræðistofnunar Íslands og með því  var gefið í skyn að þessi gripasöfn væru á leið á vergang, sem er alrangt. Aðbúnaður þeirra er betri núna en nokkru sinni áður í húsnæði stofnunarinnar í Urriðaholti.

Náttúrufræðistofnun Íslands bjó við mikinn húsnæðisvanda allan síðari hluta tuttugustu aldar þegar stofnunin var í bráðabirgðahúsnæði við Hlemmtorg í Reykjavík, og aðbúnaður gripasafna og sýningarsafns stofnunarinnar lengst af óviðunandi. Ríkisstjórn Íslands ákvað snemma árs 2007 að leysa þennan vanda og samþykkti að stofnunin skyldi fá nýtt sérhannað húsnæði fyrir starfsemi sína og þar með fyrir þau umfangsmiklu og verðmætu vísindasöfn sem stofnunin varðveitir. Jafnframt var ákveðið að setja á laggirnar sérstaka sýningar- og fræðslustofnun, Náttúruminjasafn Íslands, sem myndi í framtíðinni annast sýningarþáttinn og var það gert með lögum nr. 35/2007. Sýningarhlutverki Náttúrufræðistofnunar lauk þar með og í nýju húsi stofnunarinnar, sem hún flutti í árið 2010, er því ekki gert ráð fyrir sýningarhaldi.

Áhersla var hins vegar lögð á góða aðstöðu fyrir vísindasöfn stofnunarinnar, en í þeim eru varðveittar milljónir eintaka, og þar er einnig til staðar góð aðstaða til rannsókna. Safnkosturinn er varðveittur í þremur safnskálum sem uppfylla ströngustu öryggiskröfur.

- Náttúruminjasafn Íslands nýtur einnig góðs af þessum aðstæðum og vistar safnkost sinn í geymslunum í Urriðaholti á grundvelli samnings um samstarf Náttúruminjasafnsins og Náttúrufræðistofnunar, enda leggja báðar þessar stofnanir áherslu á samvinnu á þessu sviði.

Það er því mjög villandi að gefa í skyn að safnkostur beggja stofnana sé á vergangi og því séu íslenskar náttúruminjar og varðveittir sýningargripir í hættu, eins og gert var í frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Það ber að þakka stjórnvöldum fyrir það sem vel er gert. Húsnæðismál Náttúrufræðistofnunar hafa verið leyst með farsælum hætti og mjög vel er nú búið um starfsemi stofnunarinnar og varðveislu á vísindasöfnum hennar, sem um leið er ætlað að skapa grundvöll fyrir verðugar sýningar á náttúruminjum í framtíðinni.

Gott húsnæði fyrir sýningarsafn, hið nýja Náttúruminjasafn Íslands, sem veiti sem gleggst yfirlit um náttúru Íslands og er opið almenningi er hins vegar óleyst mál sem óhjákvæmilega verður á dagskrá stjórnvalda næstu misseri og ár. Er vonandi að þessi unga stofnun, sem enn er að slíta barnsskónum, fái innan tíðar úrlausn í þeim málum og nái þannig að vaxa og dafna þjóðinni til heilla.