Ársfundur Náttúrufræðistofnunar Íslands 2015

31.03.2015

Ársfundur Náttúrufræðistofnunar var haldinn í 22. sinn föstudaginn 27. mars s.l. á Hótel Reykjavík Natura. Fundurinn var vel sóttur, þar voru haldin ávörp og erindi um ýmis verkefni sem unnið hefur verið að á stofnuninni.

Á ársfundinum flutti Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra ávarp. Hún ræddi meðal annars um mikilvægi þess að ákvarðanataka um hverskonar ráðstöfun lands sé byggð á góðri þekkingu á eðli og gangverki náttúrunnar. Þannig sé mikilvægt að stundaðar séu rannsóknir á náttúrunni og skiplögð vöktun. Ráðherra nefndi sérstaklega verkefnið Natura Ísland en með því væri að skapast umfangsmikil og ómetanleg yfirsýn yfir náttúru landsins.

Ársfundur Náttúrufræðistofnunar Íslands 2015
Picture: Kjartan Birgisson

Jón Geir Pétursson skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra og Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands 2015

Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands flutti skýrslu ársins 2014 þar sem hann greindi meðal annars frá starfsemi og fjárhagsstöðu stofnunarinnar. Natura Íslands var stærsta og umfangsmesta verkefnið 2014 og lítur margt nýtt dagsins ljós eftir því sem verkefninu miðar áfram. Skilgreining, flokkun og kortlagning vistgerða á landi, vötnum og fjöru er langt komin og hefur stofnunin aldrei áður búið yfir jafn góðum gögnum um náttúru landsins. Fleiri stór verkefni voru nefnd, m.a. vetrarfuglatalningar, fuglamerkingar, vöktunarkerfi íslenskra fugla og mat á íslenska refastofninum. Forstjórinn ræddi einnig um uppsögn IPA-samnings vegna Natura Íslands verkefnisins og áhrif hennar á rekstraráætlun og afkomu stofnunarinnar 2014. Þá voru einnig nefnd ný og krefjandi verkefni sem stofnuninni ber að taka að sér með tilkomu nýrra náttúruverndarlaga, auk þess sem Náttúrufræðistofnun hefur mikilvægu hlutverki að gegna sem rannsóknastofnun með umsagnahlutverk og tillögugerð. Að öðru leyti vísaði forstjóri til umfjöllunar um verkefni í ársskýrslu.

Ársfundur Náttúrufræðistofnunar Íslands 2015
Picture: Kjartan Birgisson

Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Róbert Arnar Stefánsson forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands flutti ávarp og fjallaði um samstarf náttúrustofa og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hann ræddi meðal annars um mikilvægi vöktunarverkefna og örugga gagnavörslu. Þá flutti Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélags Íslands ávarp sem fulltrúi frjálsra félagasamtaka. Hann fjallaði um aukinn ferðamannafjölda á Íslandi og lagði áherslu á mikilvægi þess að skipuleggja vel framkvæmdir á ferðamannasvæðum.

Í fræðilegri dagskrá fundarins ræddi Kristján Jónasson jarðfræðingur um eldstöðvakerfi Bárðarbungu og heimsókn á eldstöðvarnar í Holuhrauni; Erling Ólafsson skordýrafræðingur fjallaði um hvernig smádýr takast á við öskufall frá Eyjafjallajökli; Guðmundur Guðmundsson flokkunarfræðingur ræddi um krossfiska og fleiri hryggleysingja á Íslandsmiðum og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur sagði frá sveppum sem nýverið hafa fundist á Íslandi.

RÚV mætti á staðinn og ræddi við þau Erling Ólafsson og Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur:

Fiðrildastofnar hrundu eftir gosið

Sjaldgæfur sveppur í Svarfaðardal

Ársskýrsla stofnunarinnar fyrir árið 2014 er yfirgripsmikil og þar er fjallað um ýmis verkefni sem unnið hefur verið að á stofnuninni