Frumathugun á trjábolaförum í Ófeigsfirði

16.08.2019
Trjáhola í Ófeigsfirði
Picture: Lovísa Ásbjörnsdóttir

Trjáhola í Ófeigsfirði.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur gefið út skýrsluna Frumrannsókn á trjábolaförum í Ófeigsfirði (pdf, 9,4 MB). Í henni er greint frá niðurstöðum frumathugana á útbreiðslu trjáhola á hluta af fyrirhugðu framkvæmdasvæði vegna virkjunar við Hvalá í Ófeigsfirði. Höfundar skýrslunnar eru Lovísa Ásbjörnsdóttir og Sigríður María Aðalsteinsdóttir jarðfræðingar.

Trjábolaför eða trjáholur eru steingervingar og njóta verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 60/2013. Trjáholur hafa fundist á nokkrum stöðum á Íslandi en yfirleitt finnast slík för þar sem hraunlög mætast eða neðarlega í hraunlögum. Trjábolaför hafa hingað til ekki verið kortlögð kerfisbundið.

Fundist hafa nokkur áður óþekkt trjábolaför í hraunlagastaflanum við Ófeigsfjörð, á svæði sem fyrirhugað er að leggja vegslóða upp á Ófeigsfjarðarheiði í tengslum við virkjunarframkvæmdir við Hvalá. Þar sem ekki var vitað hversu útbreidd eða algeng trjábolaför eru á svæðinu var farið í vettvangsferð þangað dagana 6.–8 ágúst 2019. Tilgangur ferðarinnar var að gera frumrannsókn á útbreiðslu trjáhola á fyrirhuguðu framkvæmdarsvæði og skrá í gagnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Í skýrslunni er greint frá niðurstöðum athugunarinnar. Margar fallegar trjáholur fundust á svæðinu og þá sérstaklega í efri hluta Strandarfjalla þar sem þær virðast betur varðveittar. Alls voru skráðar 46 holur í Strandarfjöllum og við Hvalá sem voru vel varðveittar og greinilegar. Til viðbótar voru 29 skráningar um óviss för, aðallega vegna rofs. Holurnar eru afar breytilegar að stærð og gerð. Í mörgum þeirra fundust geislasteinar eða síðsteindir, sérstaklega í yngri hraunlögunum. Við sumar trjáholurnar mátti greinilega sjá bogamyndun í hraunlagi sem liggur ofan á mynduninni.

Vorið 2018 gerði Náttúrufræðistofnun Íslands tillögur um verndun svæða á framkvæmdaráætlun náttúruminjaskrár (B-hluta) og eru þær tillögur í ferli hjá Umhverfisstofnun. Meðal tillagna er verndun Drangajökulssvæðisins, sett fram á grundvelli þess að svæðið býr yfir háu vísindalegu gildi, sérstaklega er varðar jöklunarsögu, fornloftslagssögu og umhverfissögu landsins og víðernis, auk þess sem svæðið er óraskað. Stofnunin hefur bent á að þörf sé á frekari rannsóknum, sérstaklega á svæðinu sunnan Drangajökuls. Frumathuganir á trjábolaförum í Ófeigsfirði styðja enn frekar við það því full ástæða er til að skoða svæðið betur með tilliti til trjáhola.