27. nóvember 2019. Kristján Jónasson: Merkar jarðminjar á Torfajökulssvæði: Tilnefning á heimsminjaskrá?

Kristján Jónasson

Kristján Jónasson jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi miðvikudaginn 27. nóvember 2019 kl. 15:15.

Torfajökulseldstöðin er einstök bæði á landsvísu og á heimsvísu. Hún er megineldstöð, með stærsta líparítsvæði landsins og innan öskjunnar er stærsta háhitasvæði landsins. Mikill hluti gosmyndana varð til við gos í jökli og er þetta hugsanlega eitt stærsta samfellda svæði slíkra líparítmyndana í heimi. Eldvirkni innan Torfajökulseldstöðvarinnar á nútíma ber þess glögg merki að landrek er að brjótast inn í hana úr norðri.

Jarðhiti innan Torfajökulsöskjunnar er afar fjölbreyttur og mikið um fágæt jarðhitafyrirbæri. Þar finnast volgrur, laugar, vatnshverir, goshverir, ölkeldur, kolsýruhverir og -laugar, gufuhverir, soðstampar, soðpönnur, gufuhitaðar laugar, leirhverir og leirugir vatnshverir, heit jörð með gufuaugum, brennisteinsþúfur, sortulækir og varmár. Önnur jarðhitasvæði eru mun fábreyttari. Yfirborðsummyndun og veðrun líparíts er einkar fjölbreytt og mjög útbreidd sem skapar m.a. hina frægu litadýrð.

Árið 2011 samþykkti ríkisstjórn Íslands, að tillögu umhverfisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra, að bæta Torfajökulssvæðinu á yfirlitsskrá heimsminja Íslands með tilnefningu til heimsminjaskrár UNESCO í huga. Þann 15. apríl 2013 var Torfajökulseldstöðin (Friðland að Fjallabaki) samþykkt af UNESCO á yfirlitsskrá Íslands, en það er fyrsti áfangi í tilnefningu svæðis til heimsminjaskrár UNESCO. Í yfirlitsskránni eru tiltekin fjögur atriði sem talið var að gætu uppfyllt viðmið UNESCO fyrir heimsminjasvæði, þrjú þeirra tengjast jarðminjum og eitt landslagi. Í erindinu verður farið yfir það hvaða jarðminjar það eru sem geta talist einstakar á heimsvísu og þeim lýst nánar.

Fyrirlesturinn á Youtube 1 (til mínútu 4:37 er rof varð á upptökunni í tvær mínútur)

Fyrirlesturinn á Youtube 2 

Á Torfajökulssvæðinu
Picture: Kristján Jónasson

Litrík ummyndun í öskjufyllingu Torfajökulseldstöðvarinnar. Jökulgil suður af Hrafntinnuskeri. 14. ágúst 2008.