4. nóvember 2020. Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon og Sigmar Metúsalemsson: Rimamýrar á Íslandi: útbreiðsla og einkenni

Borgþór Magnússon og Sigurður H. Magnússon

Borgþór Magnússon og Sigurður H. Magnússon.

Borgþór Magnússon plöntuvistfræðingur og Sigurður H. Magnússon gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytja erindið Rimamýrar á Íslandi: útbreiðsla og einkenni á Hrafnaþingi miðvikudaginn 4. nóvember 2020 kl. 15:15. Meðhöfundur að erindinu er Sigmar Metúsalemsson sérfræðingur í fjarkönnun og kortlagningu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Árið 2017 lauk Náttúrufræðistofnun Íslands við lýsingu og kortlagningu á vistgerðum á Íslandi. Í þeirri vinnu kom í ljós að til heiða og fjalla á nokkrum svæðum á landinu er að finna víðáttumiklar hallamýrar með áberandi mynstri rima í yfirborði. Rimarnir, sem liggja þvert á eða í sveig undan landhalla, koma vel fram á loft- og gervitunglamyndum. Mýrar þessar eru kallaðar rimamýrar og var þeim lýst sem sérstakri vistgerð, rimamýravist. Í rimamýrum skipast á forblautar flóalægðir og hærri og þurrari rimar. Oft eru mýrarnar ríkar af tjörnum. Rimamýrar eru útbreiddar austan hafs og vestan. Hér á landi hefur þeim lítill gaumur verið gefinn. Samkvæmt kortlagningu Náttúrufræðistofnunar eru stærstu rimamýrar landsins Miklumýrar á Hrunamannaafrétti, Lauffellsmýrar á Síðuafrétti, og mýrar á Fljótsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu. Heildarflatarmál rimamýra hér á landi er talið vera um 50 km2 og eru þær meðal sjaldgæfustu vistgerða á landinu. Í tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands til B-hluta náttúruminjaskrár var lagt til að Miklumýrar og Lauffellsmýrar yrðu friðaðar vegna hinnar sérstæðu vistgerðar sem þar er að finna.

Í fyrirlestrinum verður sagt frá rimamýrum, einkennum þeirra, útbreiðslu og verndun. Einkanlega verður fjallað um Lauffellsmýrar og Miklumýrar.

Fyrirlesturinn á Youtube

Séð yfir Miklumýrar af Innra-Búðarfjalli á Hrunamannaafrétti, Kerlingarfjöll að baki.
Picture: Sigurður H. Magnússon

Séð yfir Miklumýrar af Innra-Búðarfjalli á Hrunamannaafrétti, Kerlingarfjöll að baki, 23. júlí 2019.

Frá Miklumýrum, rimar með fjalldrapa og lynggróðri en lægir með hengistör o.fl. votlendistegundum
Picture: Sigurður H. Magnússon

Frá Miklumýrum, rimar með fjalldrapa og lynggróðri en lægir með hengistör o.fl. votlendistegundum, 26. ágúst 2013.

Séð yfir efri hluta Lauffellsmýra á Síðuafrétti
Picture: Sigmar Metúsalemsson

Séð yfir efri hluta Lauffellsmýra á Síðuafrétti, 4. september 2019.

Nærmynd tekin úr lofti af rimum, flóalægðum og tjörnum í Lauffellsmýrum
Picture: Sigmar Metúsalemsson

Nærmynd tekin úr lofti af rimum, flóalægðum og tjörnum í Lauffellsmýrum, 4. september 2019