Mýrar–Löngufjörur

Svæðið er tilnefnt vegna vistgerða, fugla og sela.

Mýrar-Löngufjörur á Íslandskorti
Löngufjörur
Picture: Arnþór Garðarsson

Löngufjörur.

Mörk

Grunnsævi og fjörur frá utanverðum Borgarfirði, um Mýrar og Löngufjörur vestur fyrir Vatnsholtsvötn í Staðarsveit, ásamt eyjum og hólmum, fjörukambi og strandvötnum. Einnig telst með landið milli sjávar, hringvegs nr. 1 og Snæfellsnesvegs nr. 54 vestur að Staðará í Staðarsveit en úr því láglendið að mestu, vestur fyrir Vatnsholt.

Stærð

1303,4 km2

Hlutfall lands: 40%
Hlutfall fjöru: 14%
Hlutfall sjávar: 43%
Hlutfall fersks vatns: 3%

Svæðislýsing

Allfjölbreytt svæði. Á grunnsævi er mikill fjöldi eyja, hólma og skerja og við vogskorna ströndina er fjörubeðurinn ýmist víðáttumiklar leirur, sandfjörur eða sjávarfitjar. Brimasemi er lítil á nánast öllu svæðinu, nema á ystu skerjum suðaustanvert þar sem brimasemi er metin nokkur. Útselir kæpa í Hvalseyjum og Tjaldurseyjum. Landselir halda sig þar einnig að staðaldri, eins meðfram ströndinni og á skerjum við Mýrar og Löngufjörur. Mjög votlent láglendissvæði er vestur um Mýrar til Staðarsveitar, víðlendar mýrar með ám, vötnum og aragrúa tjarna. Þrátt fyrir allmikla framræslu á svæðinu er þar enn að finna víðáttumiklar, lítt snortnar mýrar og flóa, svo sem Glámsflóa og Laxárbakkaflóa sitt hvoru megin Straumfjarðarár. Á klapparásum vex mólendisgróður og sums staðar birkikjarr. Fast við Borgarvog er þéttbýli með tilheyrandi starfsemi, auk landbúnaðar víða meðfram ströndinni. Hestaferðir eru tíðar um Löngufjörur og vaxandi fjöldi fólks kemur í fjöruna við Ytri Tungu til selaskoðunar. Æðardúntekja er víða stunduð, sem og fiskveiði, þar með talin mikil laxveiði. Á svæðinu voru áður miklar hlunnindajarðir vegna selveiða, sem nú hafa að mestu lagst af.

Forsendur fyrir vali

Víðlend mýrasvæði, sum þeirra lítið snortin af framræslu. Forgangsvistgerðir eru sjávarfitjungsvist, runnamýravist á láglendi og starungsmýravist, en einnig má nefna gulstararflóavist og gulstararfitjavist. Á svæðinu eru mörg lítt röskuð vötn sem oft eru samtengd. Þrjár tegundir lauka vaxa í vötnunum og er mikil þekja tjarnalauks og álftalauks í Vatnsholtsvötnum. Fjörulengjan frá Borgarnesi og norður að Vestri-Búðarey, gegnt Knarrarnesi, skartar mjög fjölbreytilegum vistgerðum, einkum marhálmsgræðum, árósum með gulþörungaleirum í Langárósi og Borgarvogi, en auk þess eru víða allstórar skera- og sandmaðksleirur.

Alþjóðlega mikilvægar sjófuglabyggðir, meðal annars lunda og æðarfugls, eru í eyjum í mynni Borgarfjarðar og úti fyrir Mýrum og talsvert varp toppskarfs, svartbaks og kríu. Eins er mikið varp vatnafugla og ná lómur og himbrimi alþjóðlegum verndarviðmiðum. Þá er svæðið mikilvægur viðkomustaðir margra tegunda og ná blesgæs, margæs, rauðbrystingur, sanderla og jaðrakan alþjóðlegum verndarviðmiðum. Hið sama á við um álft og æðarfugl á fellitíma, sendling að vetri og sennilega lóuþræl miðsumars. Tjaldar eru algengir á vetrum og svæðið er annað helsta varpland hafarnar á landinu.

Í Hvalseyjum og Tjaldurseyjum kæpir allur útselsstofn Faxaflóa. Á svæðinu eru landselslátur með allt að 87% allra landsela Faxaflóa. Þar hafa verið látur með samtals yfir 2700 landselum en sel hefur fækkað þar á undanförnum árum.

Vistgerðir

Forgangsvistgerðir
  Vistgerð Km2 % af heildarflatarmáli
Land Runnamýravist á láglendi 7,43 1
Land Sjávarfitjungsvist 7,67 45
Land Starungsmýravist 144,34 4
Ferskvatn Flatlendisvötn 23,34 11
Ferskvatn Laukavötn 2,01 3
Fjara Árósar* 6,38 16
Fjara Gulþörungaleirur 1,49 63
Fjara Marhálmsgræður 1,59 16
Fjara Sandmaðksleirur 63,69 42
Fjara Skeraleirur 0,37 <1
*Sérstök fjörusvæði

Fuglar

Forgangstegundir varpfugla: sjófuglar
Tegund  Árstími  Fjöldi (pör) Ár  % af íslenskum stofni
Toppskarfur Varp 556 2007 11
Æður Varp 10.000 1999 3
Svartbakur Varp 500 2016 7
Kría Varp 5.000 2016 3
Lundi Varp 40.000 2014 2

Sjá einnig ítarlegri umfjöllun um sjófuglabyggðina Borgarfjörður–Mýrar–Löngufjörur.

Forgangstegundir annarra varpfugla
Tegund  Árstími  Fjöldi (pör) Ár  % af íslenskum stofni
Lómur Varp 150 2016 10
Himbrimi Varp *22 2016 4
Haförn Varp 10 2016 14
*Þekkt óðul

Sjá einnig ítarlegri umfjöllun um votlendissvæðið Borgarfjörður–Mýrar–Löngufjörur.

Forgangstegundir vetrargesta, far- og fellifugla
Tegund  Árstími  Fjöldi  Ár  % af íslenskum stofni
Álft Fellir 1.133 2005 4
Blesgæs Far 3.100 2012 14
Margæs Far 5.071 1990–2010 18
Æður Fellir 160.000 1973–1974 19
Tjaldur Vetur 4.748 2017 13
Rauðbrystingur Far 22.180 1990 6
Sanderla Far 7.000 1990 6
Lóuþræll Far 30.000 2017 4
Sendlingur Vetur 1.745 2017 3
Jaðrakan Far 3.000 1999–2002 8

Sjá einnig ítarlegri umfjöllun um fjöru- og grunnsævissvæðið Borgarfjörður–Mýrar–Löngufjörur.

Selir

Tegund  Lægsti fjöldi* Hæsti fjöldi* Hæsta % af
Faxaflóastofni 
Hæsta % af
íslenskum stofni
Núverandi % af
íslenskum stofni
Útselur 5 (1998) 282 (1982) 100 (2017) 15,2 (1982) 2,2 (2017)
*Árin 1982–2017.
Tegund  Lægsti fjöldi* Hæsti fjöldi* % af
Faxaflóastofni 
Hæsta % af
íslenskum stofni
Núverandi % af
íslenskum stofni
Landselur 234 (2018)** 2.239 (1980) 88,7 (1992) 18,7 (1980) 6,8 (2018)
*Árin 1980–2018.
**Árið 2014 voru taldir 34 landselir á svæðinu en það talningarár sker sig verulega frá öðrum árum og því ekki talið með hér.

Ógnir

Framræsla, búfjárbeit (einkum hrossa), skólpmengun, áætlanir um vindorkuver, vaxandi frístundabyggð og ferðamennska. Þættir sem taldir eru geta haft áhrif á fækkun sela eru veiðar, þar með taldar veiðar við laxveiðiár og hjáveiðar, og truflun.

Aðgerðir til verndar

Framræsla á svæðinu verði ekki meiri en orðið er, endurheimta votlendi þar sem landnýting leyfir, stilla beitarálagi í hóf. Takmarka frekari landfyllingar í fjöru og hreinsa frárennsli. Tryggja að frístundabyggð verði ekki reist á viðkvæmum svæðum og að vindorkuver skerði ekki búsvæði og farleiðir fugla. Brýnt er að tryggja vernd sela í látrum og nærliggjandi grunnsævi þar sem fæðuöflun fer fram.

Núverandi vernd

Friðlýst svæði Flokkur friðlýsingar
Eldborg í Hnappadal Náttúruvætti
Aðrar náttúruminjar Númer
Utanverður Borgarfjörður 212
Hjörsey og Straumfjörður 213
Löngufjörur 214
Hraun, gígar og hellar í Hnappadal 217
Tjarnir við Hofgarða 220
Borgarvogur 239
Langárós 240

Kortasjá

Mýrar–Löngufjörur í kortasjá

Útgáfudagsetning

5. apríl 2018, uppfært 2. apríl 2019, 26. maí 2020, viðbótartillögur um seli gefnar út 3. desember 2020.