Hvalfjörður

Svæðið er tilnefnt vegna fjöruvistgerða, fugla og sela.

Hvalfjörður á Íslandskorti
Innanverður Hvalfjörður, Þyrilsnes fyrir miðju
Picture: Arnþór Garðarsson

Botnsvogur í Hvalfirði.

Mörk

Hvalfjörður ásamt hólmum og fjörum, frá botni og út að Grundartanga að norðan og Hvalfjarðareyrar að sunnan. Svæðið nær jafnframt yfir Andríðsey, Eyjasker og Nónsker með 1 km jaðarsvæði til sjávar.

Stærð

87,5 km2

Hlutfall lands: <1%
Hlutfall fjöru: 11%
Hlutfall sjávar: 88%
Hlutfall fersks vatns: <1%

Svæðislýsing

Fremur djúpur fjörður, sem gengur inn af Faxaflóa, með lífríkum grunnum vogum og víðáttumiklum leirum. Brimasemi er lítil inn eftir firðinum, frá Hvaleyri í suðri að Saurbæjarvík í norðri, en þar fyrir vestan er brimasemin meiri. Á svæðinu er stunduð útivist. Fjaran við Fossá er vinsæl til kræklingatínslu, æðardúntekja er víða og landbúnaður á nærliggjandi jörðum. Innan svæðisins eru nokkur landselslátur, þar af eitt í Þrætuskeri, inni í miðjum firði. Mikilvæg landselslátur eru við Eyjasker og Andríðsey við mynni Hvalfjarðar og Nónsker við norðanverðan fjörðinn. Mikil sand- og malartekja er yst í firðinum og lítilsháttar fiskveiðar. Verksmiðjur eru við mörk svæðisins á Grundartanga og vaxandi byggð sumarbústaða og heilsárhúsa er við sunnanverðan Laxárvog.

Forsendur fyrir vali

Fjörulengjan sem heild skartar mjög fjölbreytilegum vistgerðum, einkum kræklingaleirum ásamt allstórri kræklinga- og sölvaóseyri við Fossá. Mjög víða eru tiltölulega stórar skera- og sandmaðksleirur. 

Mikið fuglalíf er á svæðinu árið um kring og telst það alþjóðlega mikilvægt fyrir fargestina margæs og rauðbrysting. Hið sama á við um vetrargestina flórgoða og sendling. Eins er mikið af tjaldi allt árið, einkum þó á vetrum. Svæðið telst mikilvægt fyrir viðgang landselsstofnsins en látur eru bæði innan Hvalfjarðar og við mynni hans með allt að 9,5% allra landsela Faxaflóa. Þar hafa verið látur með yfir 100 landselum en þeim hefur fækkað á undanförnum árum.

Vistgerðir

Forgangsvistgerðir
  Vistgerð Km2 % af heildarflatarmáli
Fjara Kræklinga- og sölvaóseyrar 0,12 22
Fjara Kræklingaleirur 0,66 7
Fjara Sandmaðksleirur 3,53 2
Fjara Skeraleirur 0,64 1

Fuglar

Forgangstegundir far- og vetrargesta
Tegund  Árstími  Fjöldi  Ár  % af íslenskum stofni
Flórgoði Vetur 55 2005–2013 3
Margæs Far 1.431 1990–2010 5
Tjaldur Vetur 505 2017 1
Rauðbrystingur Far 18.512 1990 5
Sendlingur Vetur 520 1975 1

Sjá einnig ítarlegri umfjöllun um fjöru- og grunnsævissvæðið Hvalfjörður.

Selir

Tegund  Lægsti fjöldi* Hæsti fjöldi* Hæsta % af
Faxaflóastofni 
Hæsta % af
íslenskum stofni
Núverandi % af
íslenskum stofni
Landselur 104 (2003) 814 (1998) 9,5 (2018) 1,1 (2016) 0,7 (2018)
*Árin 1980–2018.

Ógnir  

Fjaran er lítið röskuð, fyrir utan veg sem liggur um Botnsvog og þvert yfir Brynjudalsvog. Hafnarmannvirki eru í Hvítanesi, við Hvalstöðina og olíustöðina ofan við Bjarteyjarsand. Stórskipahöfn er á Grundartanga sem er við útjaðar svæðisins og skipaumferð og mengun í tengslum við hana. Víða hefur verið byggt steinsnar frá fjörunni, til dæmis við Laxárvog. Malarnám af sjávarbotni. Vaxandi frístundabyggð og ferðamennska er á svæðinu. Þættir sem taldir eru geta haft áhrif á fækkun sela eru veiðar, þar með taldar veiðar við laxveiðiár og hjáveiðar, og truflun.

Aðgerðir til verndar

Setja ætti strangari viðmið um fjarlægð bygginga frá ströndu og takmarka frekari röskun á fjörunni en orðið er. Viðhafa eftirlit með iðnaði, þar á meðal með tilliti til efnamengunar og strandrofs. Brýnt er að tryggja vernd sela í látrum og nærliggjandi grunnsævi þar sem fæðuöflun fer fram.

Núverandi vernd

Aðrar náttúruminjar Númer
Andríðsey 133
Laxárvogur og Laxá í Kjós 134
Brynjudalur, Botnsdalur, Hvalvatn og Glymur 136
Ósmelur og Hvalfjarðareyri 138
Hvalfjarðarströnd 235

Kortasjá

Hvalfjörður í kortasjá

Útgáfudagsetning

5. apríl 2018, uppfært 26. febrúar 2019, 27. mars 2019, 26. maí 2020, viðbótartillögur um seli gefnar út 3. desember 2020.