Breiðafjörður

Svæðið er tilnefnt vegna fjöruvistgerða, fugla og sela.

Breiðafjörður á Íslandskorti
Snóksdalspollar í innanverðum Hvammsfirði
Picture: Kristinn Haukur Skarphéðinsson

Snóksdalspollar í innanverðum Hvammsfirði.

Mörk

Breiðafjörður ásamt eyjum, skerjum og fjörum innan línu sem dregin er frá Vallnabjargi á Snæfellsnesi um Höskuldsey, Stagley, Oddbjarnarsker og Hagadrápssker að Skorarvogi á Barðaströnd. Lagt er til að stærstu fuglabyggðir og selalátur við jaðar svæðisins falli jafnframt til þess, ásamt 100 m verndarjaðri til landsins og 1 km jaðri til sjávar.

Stærð

2930,5 km2

Hlutfall lands: 2%
Hlutfall fjöru: 11%
Hlutfall sjávar: 86%
Hlutfall fersks vatns: <1%

Svæðislýsing

Breiðafjörður er mikill og vogskorinn flói á milli Snæfellsness og Vestfjarða, djúpur utan til en grynnkar verulega þegar innar dregur. Allt að 5–6 m hæðarmunur á sjávarstöðu flóðs og fjöru. Í firðinum eru víðáttumiklar leirur og grýttar fjörur, þúsundir eyja og skerja og eru eyjarnar flestar vel grónar. Lífríki Breiðafjarðar er mjög fjölskrúðugt. Þörungagróður er mikill í fjörum og á grunnsævi, svæðið er ríkt af fuglalífi og selur kæpir á skerjum og eyjum. Við ströndina er undirlendi fremur lítið en með henni eru sveitabýli og nokkrir byggðakjarnar. Víða er dvalist í eyjunum að sumri til en Flatey er ein í byggð allt árið. Eyjarnar eru nýttar til hlunninda á borð við æðarvarp, eggja- og fuglatöku og einnig til beitar fyrir sauðfé. Áður fyrr voru þar miklar hlunnindajarðir vegna selveiði sem hefur að mestu lagst af. Breiðafjörður er vinsæll til útivistar og er ferðaþjónusta ört vaxandi. Meðal annarrar starfsemi má nefna fiskveiðar, siglingar, þörungavinnslu, eldi og ræktun sjávarlífvera, til að mynda kræklings og hörpudisks.

Forsendur fyrir vali

Í Breiðafirði eru fimm fjöruspildur sem eru ríkar af forgangsvistgerðum, en þær eru í Álftafirði og á svæðinu frá Djúpafirði og suður fyrir Gilsfjörð. Þar eru víða allstór leirusvæði með stórum og samfelldum marhálmsgræðum, sandmaðks- og gulþörungaleirum, auk kræklinga- og sölvaóseyra, klóþangsfjörum og -klungri.

Mikið sjófuglavarp er í Breiðafirði og ná meðal annars eftirtaldar tegundir alþjóðlegum verndarviðmiðum: fýll, rita, lundi, toppskarfur, æður, teista, svartbakur og kría. Hið sama á við um hvítmáf ef byggðir í jaðri verndarsvæðis eru taldar með, en hvítmáfi hefur fækkað mjög mikið. Breiðafjörður er afar mikilvægur viðkomustaður á fartíma og þær tegundir sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum á þeim tíma eru margæs, rauðbrystingur, sendlingar og tildra. Á fjaðrafellitíma uppfylla æðarfuglar, álftir og grágæsir alþjóðleg töluleg viðmið. Hið sama á við um varp grágæsa og lóms. Að vetri er Breiðafjörður alþjóðlega mikilvægur fyrir straumönd, sendling og væntanlega æðarfugl. Eins er fjörðurinn annar helsti vetrardvalarstaður tjalds hér á landi. Þá er hér langmikilvægasta varpsvæði hafarnar á Íslandi (>60% stofnsins).

Í Breiðafirði kæpa allt að 65% af íslenska útselsstofninum og þar eru einnig allt að 19% af heildarstofni landsela. Þar hafa verið látur með samtals yfir 2500 landselum en sel hefur fækkað þar á undanförnum árum.

Vistgerðir

Forgangsvistgerðir
  Vistgerð Km2 % af heildarflatarmáli
Fjara Gulþörungaleirur 0,81 35
Fjara Klóþangsfjörur 49,65 71
Fjara Klóþangsklungur 104,06 90
Fjara Kræklinga- og sölvaóseyrar 0,42 77
Fjara Marhálmsgræður 3,60 35
Fjara Sandmaðksleirur 37,94 25

Fuglar

Forgangstegundir varpfugla: sjófuglar
Tegund  Árstími  Fjöldi (pör) Ár % af íslenskum stofni
Fýll Varp 36.434 1975–2013 3
Toppskarfur Varp 4.117 2007 84
Æður Varp 60.000 1999 20
Hvítmáfur Varp 522 2005–2011 22
Svartbakur Varp 3.500 2016 50
Rita Varp 10.313 2006 2
Kría Varp 15.000 2016 8
Teista Varp 2.000 2016 16
Lundi Varp 377.250 2014 19
Alls    512.407    

Sjá einnig ítarlegri umfjöllun um sjófuglabyggðirnar Breiðafjörður, Mýrarhyrna, Kirkjufell, Siglunes–Skor–Melanes og Sandsfjöll.

Forgangstegundir: aðrir fuglar
Tegund  Árstími  Fjöldi  Ár % af íslenskum stofni
Lómur Varp *100 2016 7
Álft Fellir 3.201 2005 12
Grágæs Varp *1.700 1997 6
Grágæs Fellir 2.500 1997 3
Margæs Far 15.522 1990-2010 55
Æður Fellir 36.000 1980 4
Straumönd Vetur 1.626 1999-2001 12
Haförn Varp *47 2016 64
Tjaldur Vetur 3.347 2017 9
Rauðbrystingur Far 170.000 1990 49
Sendlingur Far 5.210 1990 10
Sendlingur Vetur 2.368 2017 5
Tildra Far 10.000 1990 7
*Pör

Sjá einnig ítarlegri umfjöllun um fjöru- og grunnsævissvæðið Breiðafjörður.

Selir

Tegund  Lægsti fjöldi* Hæsti fjöldi* Hæsta % af
íslenskum stofni
Núverandi % af
íslenskum stofni
Útselur 142 (1985) 1.311 (1989) 65,6 (1998) 63,9 (2017)
*Árin 1982–2017
Tegund  Lægsti fjöldi* Hæsti fjöldi* Hæsta % af
íslenskum stofni
Núverandi % af
íslenskum stofni
Landselur 462 (2016)** 2.552 (1980) 18,7 (1985) 11,7 (2018)
*Árin 1980–2018
**Árið 2014 voru taldir 132 landselir á tveimur svæðum í Breiðafirði. Ekki er talið að þetta talningarár sé marktækt og því ekki skráð fyrir lægsta fjölda.

Ógnir  

Vaxandi ferðamennska og ásókn í frístundabyggð í eyjum með tilheyrandi hættu á skólpmengun. Vegagerð og þveranir geta raskað fjörum og breytt vatnsskiptum. Áform um aukna þangtekju. Veiðar og önnur nýting fuglastofna. Hugmyndir um vindorkugarða í útjaðri verndarsvæðis. Þættir sem taldir eru geta haft áhrif á fækkun sela eru veiðar, þar með taldar veiðar við laxveiðiár og hjáveiðar, og truflun.

Aðgerðir til verndar

Breiðafjörður er verndaður með lögum nr. 54/1995. Framkvæmd laganna er á margan hátt ómarkviss og lögin veik enda hafa reglugerðir sem kveða á um útfærslu þeirra ekki verið settar. Lagt er til að styrkja vernd hafsvæðisins í Breiðafirði og að verndun fjarðarins verði tryggð betur með lögum eða setningu reglugerða. Um seli í Breiðafirði gilda lög um selaskot á Breiðafirði og uppidráp nr. 30/1925. Endurskoða þarf lög og reglugerðir um vernd og veiðar á selum og færa til nútímans. Þá löggjöf þarf samræma við önnur lög, svo sem lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994. Undir verndarsvæðið falli jafnframt mikilvægar fuglabyggðir við fjörðinn: Mýrarhyrna, Kirkjufell, Siglunes-Skor-Melanes og Sandsfjöll. Auk þess er lagt til að ýmsar aðrar fuglabyggðir í fjöllum við fjörðinn falli þar undir, svo sem Bjarnarhafnarfjall. Takmarka þarf rask í fjöru og aðrar aðgerðir sem að hefta sjávarföll. Setja þarf strangar reglur um byggingar í eyjum og styrkja stjórn svæðisins með tilliti til náttúruverndar. Tryggja að vindorkuver skerði ekki búsvæði og farleiðir fugla.

Núverandi vernd

Friðlýst svæði Flokkur friðlýsingar
Breiðafjörður Eyjar og fjörur eru verndaðar með lögum nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar
Melrakkaey Friðland
Hrísey Friðland
Flatey Friðland
Vatnsfjörður Friðland
Aðrar náttúruminjar Númer
Berserkjahraun, Hraunsfjörður og nálæg vötn 227
Fjörur í Hofstaðavogi 228
Fjörur í Álftafirði og Vigrafirði 230
Elliðaey 241
Höskuldsey 242
Vaðstakksey 243
Þormóðsey 244
Lambey og Steindórseyjar 245
Hrappsey og Klakkeyjar 246
Rauðseyjar 247
Norðurströnd Þorskafjarðar og fjörur í Djúpafirði 303
Bæjarvaðall 306
Hergilsey 332
Stagley 333
Klofningur við Flatey 334
Diskæðarsker 335
Langey við Flatey 336
Oddbjarnarsker 337
Sauðeyjar 339

Kortasjá

Breiðafjörður í kortasjá

Útgáfudagsetning

5. apríl 2018, uppfært 27. mars 2019, 26. maí 2020, viðbótartillögur um seli gefnar út 3. desember 2020.