Vestmannaeyjar

Svæðið er tilnefnt vegna fjöruvistgerða og fugla.

Vestmannaeyjar á Íslandskorti
Vestmannaeyjar
Picture: Arnþór Garðarsson

Vestmannaeyjar.

Mörk

Eyjaklasi undan Landeyjarsandi. Tillögur um vernd samkvæmt friðlýsingarskilmálum sem samþykktir voru í bæjarstjórn Vestamannaeyja í maí 2016 nær yfir eftirtalin svæði á Heimaey: Dalfjall, Litla Höfða, Stórhöfða, Sæfjall, Kervíkurfjall, ásamt hafsvæði allt að 500 m utan við svæðin og niður á hafsbotn og til Ystakletts, Miðkletts og Heimakletts, en nær þar ekki til sjávar úti fyrir. Þá nær svæðið til allra úteyja, þ.e. átta eyjasvæða: Álseyjar og Brands, Bjarneyjar, Elliðaeyjar, Helliseyjar, Suðureyjar, Geldungs og Súlnaskers, Geirfuglaskers og Smáeyja, þ.e. Hana, Hænu, Hrauneyjar og Grasleysu ásamt hafsvæði sem er 500 m belti umhverfis eyjarnar og nær niður á hafsbotn. Auk þess er lagt bann við skotveiðum á 2 km belti utan við tilgreind svæði.

Stærð

139,1 km2

Hlutfall lands: 10%
Hlutfall fjöru: <1%
Hlutfall sjávar: 89%
Hlutfall fersks vatns: <1%

Svæðislýsing

Vestmannaeyjar eru ýmist taldar 15 eða 18 auk 30 skerja og dranga. Flestar þeirra eru sæbrattar og þær stærri grasigrónar að ofan. Utan við fjöruna við Kaplagjótu og Ræningjatanga á Heimaey eru víða skerjadrög, en þar er fjörubeðurinn grýttur með skörðóttum klöppum og glufum, sem allt veitir skjól fyrir talsverðu brimi. Við Ræningjatanga er auk þess leira og gróskumikil sagþangsfjara. Ferðamennska og útivist er stunduð á svæðinu sem og eggjataka og fuglaveiði. Fuglatekja er algeng í eyjunum og sauðfé er beitt á nokkrum þeirra.  

Forsendur fyrir vali

Grófgerður og úfinn fjörubeðurinn við Kaplagjótu og Ræningjatanga er ríkur af skjólsælum glufum og skorningum sem fóstra auðugt lífríki og klóþangsfjöru að hluta, þrátt fyrir talsverða brimasemi og að ríkjandi vistgerð sé brimasöm hrúðurkarlafjara.

Í Eyjum eru afar mikilvægar varpstöðvar sjófugla og er stofna nokkurra tegunda sem verpa hér svo til eingöngu að finna þar: skrofu, stormsvölu og sjósvölu. Lundinn er einkennisfugl Vestmannaeyja, enda er þar langstærsta lundabyggð landsins. Aðrar tegundir sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum eru fýll, skrofa, stormsvala, sjósvala, súla, rita, langvía og álka.

Vistgerðir

Forgangsvistgerðir
  Vistgerð Km2 % af heildarflatarmáli
Fjara Klóþangsfjörur 0,04 <1

Fuglar

Forgangstegundir varpfugla
Tegund  Árstími  Fjöldi (pör) Ár  % af íslenskum stofni
Fýll Varp 38.377 2006–2008 3
Skrofa Varp 5.660 1991 100
Stormsvala Varp 75.000 1983–2010 100
Sjósvala Varp 198.000 1991 100
Súla Varp 15.044 2013–2014 40
Rita Varp 50.185 2006–2008 9
Langvía Varp 33.016 2006 5
Álka Varp 2.843 2006 1
Lundi Varp 840.375 2015 42
Alls    1.258.500    

Sjá einnig ítarlegri umfjöllun um sjófuglabyggðina Vestmannaeyjar.

Ógnir  

Skipaumferð og hafnarstarfsemi. Útbreiðsla framandi tegunda. Sjálfbær nýting hefur verið stunduð um langt skeið en vaxandi ferðamannastraumur býður hættum heim.     

Aðgerðir til verndar

Unnið hefur verið að friðlýsingu helstu fuglabyggða í Vestmannaeyjum um árabil og liggja skýrir friðlýsingaskilmálar fyrir, sbr. lýsingu á mörkum hér fyrir framan. Fylgjast ætti með útbreiðslu sagþangs í Heimaey.

Núverandi vernd

Aðrar náttúruminjar Númer
Elliðaey 721
Ystiklettur 722
Helgafell og Eldfell 723
Hellisey 724
Súlnasker 725

Kortasjá

Vestmannaeyjar í kortasjá

Útgáfudagsetning

5. apríl 2018, uppfært 26. febrúar 2019, 26. maí 2020.