Laugarvatn–Apavatn–Brúará

Svæðið er tilnefnt vegna vistgerða á landi, ferskvatnsvistgerða og fugla.

Laugarvatn-Apavatn-Brúará á Íslandskorti
Mýrahveravist
Picture: Ásrún Elmarsdóttir

Frá Reykjanesi við Brúará.

Mörk

Laugarvatn og Apavatn í Laugardal og Brúará frá upptökum við Högnhöfða suður að ármótum Hvítár við Skálholtstungu. Svæðið nær einnig til Hólaár sem rennur til suðurs úr Laugarvatni, auk 100 m verndarjaðars meðfram árbökkum og umhverfis Apavatn.

Stærð

44,3 km2

Hlutfall lands: 54%
Hlutfall fersks vatns: 46%

Svæðislýsing

Lífrík stöðuvötn og ár og nærumhverfi þeirra, einnig mýrasvæði suðvestur og norðaustur af Laugarvatni. Fjölmargar lindár og lækir falla til vatnanna og Brúarár, þar á meðal Hagaós úr Apavatni. Tilkomumikið landslag er í Brúarskörðum. Fjölskrúðugur gróður og fuglalíf enda fjölbreytt búsvæði til staðar. Á svæðinu er stundaður landbúnaður og útivist, orlofshús eru víða.

Forsendur fyrir vali

Mýrahveravist einkennir jarðhitasvæðin Reykjanes og Þorlákshver við Brúará og eru þau lítt snortin. Þar eru heitar uppsprettur og renna frá þeim jarðhitalækir. Þrjár tegundir æðplanta, sem eru alfarið eða að mestu bundnar við jarðhita, finnast á svæðinu en það eru vatnsögn, flóajurt og vatnsnafli. Brúará er lindá þar sem er stór og að mestu staðbundinn bleikjustofn. Alþjóðlega mikilvægt svæði fyrir húsendur og gulendur á veturna. Mikið af öndum dvelst á ám og vötnum á fartíma, þar á meðal duggönd og straumönd.

Vistgerðir

Forgangsvistgerðir
  Vistgerð Km2 % af heildarflatarmáli
Land Mýrahveravist <0,01 3
Ferskvatn Ár á yngri berggrunni 66,96* 1
Ferskvatn Jarðhitalækir    
*Lengd í km

Fuglar

Forgangstegundir fugla
Tegund  Árstími  Fjöldi  Ár  % af íslenskum stofni
Duggönd Far 720 2012 7
Húsönd Varp 33 2006 2
Gulönd Varp 28 2005–2010 3
Straumönd Far 150+ 1990–1995 1+

Sjá einnig ítarlegri umfjöllun um fuglasvæðið Laugarvatn–Apavatn–Brúará

Ógnir  

Vaxandi frístundabyggð, ferðamennska og hætta á mengandi frárennsli. Aðrar ógnir stafa af íbúabyggð, framræslu, hrossabeit, skógrækt, jarðhitanýtingu, vegagerð og bílaumferð.

Aðgerðir til verndar

Tryggja að ekki verði byggt of nærri vatns- og árbökkum. Til að ná fram skilvirkri vernd vatnavistgerða þarf að tryggja að jaðarsvæðum þeirra sé ekki raskað í að minnsta kosti 100 m fjarlægð frá þeim. Gæta að mengun frá íbúa- og frístundabyggð og tryggja að jarðhitanýting spilli ekki sérstæðum jarðhitasvæðum.

Núverandi vernd

Aðrar náttúruminjar Númer
Brúará og Brúarskörð 739
Laugarvatn 741
Skálholtstunga og Mosar 764
Selsflóð 765
Flatholt–Reiðholt 766
Reykjanes 767
Þorkelsholt–Hamrar 768

Kortasjá

Laugarvatn–Apavatn–Brúará í kortasjá

Útgáfudagsetning

5. apríl 2018, uppfært 26. febrúar 2019, 2. apríl 2019, 17. maí 2019, 26. maí 2020.