Glymur

Svæðið er tilnefnt vegna jarðminja.

Glymur á Íslandskorti
Glymur í Botnsá
Picture: Lovísa Ásbjörnsdóttir

Glymur.

Breiðifoss og Glymur í Botnsá
Picture: Lovísa Ásbjörnsdóttir

Breiðifoss efst og Glymur.

Mörk

Mörk miðast við Glymsgil, frá ármótum við Stóragil og upp fyrir Breiðafoss ofan Glyms. Glymsgil er um 1.000 m langt og 50–100 m breitt en nær allt að 200 m breidd þar sem mest lætur. Jaðarsvæði er miðað við 200 m frá miðlínu Botnsár.

Stærð

1,60 km2

Lýsing

Glymur er í Botnsá í Botnsdal, í innanverðum Hvalfirði og rennur áin  úr Hvalvatni. Við myndun Hvalfells, í gosi undir jökli fyrir 12–13.000 árum, stíflaðist jökulsorfinn dalur. Þegar jökullinn hörfaði myndaðist Hvalvatn, um 160 m djúpt, innan við fellið. Yfirborð Hvalvatns er í 380 m hæð en botn dalsins neðan við Hvalfell er í um 100 m hæð. Botnsá hefur frá ísaldarlokum grafið sér leið í gegnum jarðlagastaflann og myndað þröngt og djúpt gljúfur, Glymsgil, sem einnig nefnist Botnsárgljúfur. Innst í gljúfrinu, í um 300 m hæð y.s. fellur Glymur fram af klettahafti.

Glymur er hæsti foss landsins ef frá eru taldir fossarnir í Morsárdal sem myndast við jökulbráð. Fossinn er 198 m hár, fremur vatnslítill en rennsli hans er nokkuð stöðugt. Breiðifoss er um 1.500 m ofar í ánni en hann er slæðufoss í tveimur stöllum.

Neðst við Botnsárgljúfur er náttúrulegt birkikjarr. Gönguleiðir liggja upp meðfram gljúfurbörmum beggja vegna.

Flokkun

Grunnflokkur: Virk ferli landmótunar

Flokkur: Vatnafar og jöklar

Gerð: Foss, stíflufoss

Forsendur fyrir vali

Hæsti foss landsins og djúp, þröng gljúfur. Vinsæll áfangastaður ferðamanna.

Ógnir

Vaxandi umferð ferðamanna veldur traðki á börmum gljúfursins.

Aðgerðir til verndar

Uppbygging innviða, laga þarf göngustíga til að stýra umferð. Takmarka þarf umferð inn í gljúfrið vegna hættu á hruni úr gljúfurveggjunum.

Núverandi vernd

Aðrar náttúruminjar Nr.
Brynjudalur, Botnsdalur, Hvalvatn og Glymur 136

Kortasjá

Glymur í kortasjá

Útgáfudagsetning

3. desember 2020.