Fossabrekkur

Svæðið er tilnefnt vegna jarðminja. Það er innan tillögusvæðisins Ytri-Rangá, sem tilnefnt er vegna ferskvatnsvistgerða.

Fossabrekkur á Íslandskorti
Fossabrekkur í Rangárbotnum
Picture: Lovísa Ásbjörnsdóttir

Fossabrekkur.

Mörk

Mörk miðast við fossbrún og 200 m jaðarsvæði út frá henni.

Stærð

0,20 km2

Lýsing

Fossabrekkur eru í Rangárbotnum þar sem Ytri-Rangá, sem er vatnsmikil lindá og myndar gróðurvin í sendnum auðnum, sprettur fram í láginni vestan Næfurholtsfjalla sunnan Landmannaleiðar. Auðnirnar eru víðáttumiklar og að miklu leyti myndaðar í gjóskugosum frá Heklu. Gjóskubunkarnir hafa mikla vatnsleiðni og sígur leysinga- og úrkomuvatn í gegnum gjóskulögin og sprettur fram sem kaldar lindir í Rangárbotnum. Lágir en breiðir fossarnir eru þar sem Ytri-Rangá fellur fram af Sigölduhrauni, en hraunið á uppruna sinn í Bárðarbungu-eldstöðvakerfinu og rann fyrir um 4.500–7.000 árum.

Fossabrekkur er vinsæll viðkomustaður ferðamanna en aðgengi að þeim er gott af Landvegi.

Flokkun

Grunnflokkur: Virk ferli

Flokkur: Vatnafar og jöklar

Gerð: Fossar, stíflufossar

Forsendur fyrir vali

Formfagur lindárfoss þar sem áin myndar gróðurvin í ljósleitum gjóskuauðnum Heklu. Með bökkum árinnar eru hvannstóð og grösugir bollar sem skapa miklar andstæður við vikurauðnirnar umhverfis.

Ógnir

Vikurvinnsla, frístundabyggð, ferðamennska og ágengar tegundir.

Aðgerðir til verndar

Banna námavinnslu í grennd við fossana, byggja upp innviði til varnar skemmdum vegna átroðnings, koma í veg fyrir dreifingu ágengra tegunda og tryggja að jaðarsvæðum sé ekki raskað í að minnsta kosti 200 m fjarlægð frá útmörkum Rangárbotnanna.

Núverandi vernd

Aðrar náttúruminjar Nr.
Hekla 730

Kortasjá

Fossabrekkur í kortasjá

Útgáfudagsetning

3. desember 2020.